Erlent

Gripinn glóðvolgur við að stela lestarteinum í Auschwitz

Andri Eysteinsson skrifar
Horft eftir lestarteinunum í Auschwitz
Horft eftir lestarteinunum í Auschwitz Getty/Sean Gallup
37 ára gamall bandarískur ferðamaður hefur verið ákærður í Póllandi fyrir tilraun til þjófnaðar á menningarverðmætum. Maðurinn hafði gert tilraun til að hafa á brott með sér hluta af lestarteinum sem notaðir voru við fangaflutningar til útrýmingarbúðanna Auschwitz. AP greinir frá.

Talskona lögreglunnar í pólska bænum Oswiecim, Malgorzata Jurecka, sagði að maðurinn hafi játað sekt sína. Samkvæmt pólskum lögum er hámarksrefsing fyrir glæp ferðamannsins 10 ára fangelsisvist.

Reglulega hafa komið upp sambærileg mál í Auschwitz. Það umfangsmesta var þegar þekktu skilti, við innganginn að útrýmingarbúðunum, var rænt. Skiltið, sem var áletrað með slagorðinu „Arbeit Macht Frei“, fannst nokkru seinna en þá hafði það verið skorið í sundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×