Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir við upphaf þingfundar í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði ráðherrann hvort ríkisstjórnin hefði einhver áform um það hvernig hún gæti brugðist við ólíkum sviðsmyndum eftir því sem flugrekstursmál þróast. Bjarni var þá einnig spurður hvort ríkisstjórnin hefði mótað sér áætlun um að lágmarka tjón, verja störf og halda starfseminni gangandi eins og kostur væri ef allt fer á versta veg.

Ríkisstuðningur ekki réttlætanlegur í áhætturekstri
Bjarni steig í pontu og sagði að ríkisstjórnin hefði fylgst náið með þróun mála hjá WOW air síðastliðna mánuði. Hann sagði, eins og oft hefur komið fram, að ríkisstjórnin hygðist ekki leggja til fjármuni til að hjálpa WOW air.„Ég hef sagt það nokkrum sinnum opinberlega að ég telji það ekki réttlætanlegt að setja skattfé in í áhætturekstur eins og þennan og þess vegna er það ekki hluti af okkar áætlunum að gera neitt slíkt,“ sagði Bjarni.
Hann bætti við að stjórnvöld þyrftu að vera viðbúin því ef meiriháttar röskun verður á flugrekstri og huga að „bæði orðsporsáhættu sem því gæti fylgt og eins stöðu farþega og hvernig greiða skuli úr ef á þarf að halda en þær aðstæður hafa ekki enn skapast sem betur fer en við erum viðbúin ef það gerist.“