Erlent

Gríðarlegt manntjón og eyðilegging vegna fellibyljarins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Margir hafa týnt lífi, slasast eða misst heimili sín vegna fellibyljarins.
Margir hafa týnt lífi, slasast eða misst heimili sín vegna fellibyljarins. Tafadzwa Ufumeli/Getty
Fellibylurinn Idai hefur valdið miklu manntjóni og gríðarlegri eyðileggingu í suðurhluta Afríku eftir að hann gekk þar á land á fimmtudag. Sameinuðu þjóðirnar segja fellibylinn hafa haft áhrif á allt að milljón manns.

Fellibylurinn gekk á land í hafnarborginni Beira í Mósambík með vindhviðum sem námu allt að 177 kílómetrum á klukkustund, eða um 50 metrum á sekúndu.

Forseti Mósambík, Filipe Nyusi, segir bylinn vera „mannúðarkrísu af mikilli stærðargráðu,“ og segir að yfir eitt þúsund manns hafi týnt lífi síðan Idai kom að ströndum landsins.

Sameinuðu þjóðirnar áhyggjufullar

„Þetta stefnir í að verða einhverjar verstu veðurhamfarir sem sést hafa á suðurhveli jarðar,“ sagði Claire Nullis hjá veðurstofnun Sameinuðu þjóðanna, í samtali við BBC.

Christian Lindmeier, hjá heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, tók í sama streng.

„Við þurfum alla þá skipulagsaðstoð sem við getum fengið.“



Mósambík, Simbabve og Malaví finna fyrir áhrifum byljarins

Ríkisstjórn Mósambík segir 84 hafa farist og að um hundrað þúsund manns séu í bráðri björgunarþörf á svæðinu nálægt Beira.

Loftmyndir af svæðinu sýna þá að um 50 kílómetra landlengja sé farin undir vatn eftir að áin Buzi flæddi yfir bakka sína í kjölfar óveðursins.

Í Simbabve eru þá 98 látnir og tvö hundruð er saknað. Forseti landsins, Emmerson Mnangagwa segir ríkisstjórnina vinna hörðum höndum að björgunaraðgerðum og að því að koma neyðaraðstoð til þeirra sem veðurofsinn hefur haft áhrif á.

Áætlað er að um 1,7 milljónir hafi orðið á vegi fellibyljarins í Mósambík og um 920 þúsund í Malaví.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×