Kane Tanaka frá Fukuoka í Japan var í dag opinberlega staðfest af Heimsmetabók Guinness sem elsta núlifandi manneskja veraldar. Tanaka er fædd 2. janúar 1903 og er því 116 ára og 66 daga gömul í dag.
Aldur Tanaka var staðfestur af Heimsmetabókinni þann 30. janúar á þessu ári, en þá var hún skör yngri en hún er nú, eða aðeins 116 ára og 28 daga gömul.
Heilsa Tanaka hefur ekki alltaf verið upp á sitt besta en hún hefur meðal annars gengist undir aðgerðir vegna skýja á augum og ristilkrabbameins. Í dag er hún þó nokkuð stálslegin miðað við aldur og fyrri störf og heldur til á dvalarheimili fyrir aldraða í Fukuoka.
Tanaka vaknar um klukkan sex á morgni hverjum og eftir hádegi leggur hún stund á nám á greinum á borð við stærðfræði. Eitt helsta tómstundaáhugamál hennar er borðspilið Othello, en starfsfólk dvalarheimilisins sem hún býr á segir hana ansi góða í því.
Aðspurð hvað Tanaka hygðist gera í tilefni þess að hafa verið opinberlega krýnd elsta kona í heimi sagðist hún ætla að borða „100 súkkulaðimola.“
Elsta núlifandi kona heims krýnd elsta núlifandi kona heims
Vésteinn Örn Pétursson skrifar
