Erlent

Lýsa yfir neyðarástandi vegna ísbjarna

Andri Eysteinsson skrifar
Ísbjörn á ferð norður af Svalbarða.
Ísbjörn á ferð norður af Svalbarða. Getty/Wildest Animal
Yfirvöld á rússneska eyjaklasanum Novaja Semlja í Norður-Íshafi hafa lýst yfir neyðarástandi vegna tíðra árása ísbjarna á íbúa svæðisins.

Breska ríkisútvarpið hefur það eftir svæðisyfirvöldum að árásir bjarndýranna á fólk hafi aukist upp á síðkastið. Einnig eru birnirnir orðnir ágengari en áður og eru dæmi um að dýrin hafi leitað inn í þjónustubyggingar og heimili.

Fregnir hafa borist af 52 bjarndýrum í nágrenni Belushya Guba, stærsta bæjar eyjaklasans. Sveitarstjóri Belushya Guba, Vigansha Musin sagði í yfirlýsingu að meira en fimm birnir væru í raun með fasta búsetu í nágrenni bæjarins.

Musin sagði einnig að frá því að hann flutti til Novaja Semlja, árið 1983, hafi aldrei nokkurn tíma borið jafn mikið á ísbjörnum og nú. Haft er eftir bæjarstarfsmönnum að íbúar séu hræddir, fólk forðist það að fara út úr húsi og börn fari ekki í skólann vegna ástandsins.

Leita inn á land í auknum mæli vegna loftslagsbreytinga

Rússnesk yfirvöld hafa neitað að veita sérstök leyfi til að skjóta birnina sem eru flokkaðir til tegunda í útrýmingarhættu í Rússlandi. Birnirnir munu vera hættir að bregðast við hefðbundnum aðferðum til að fæla þá í burtu.

Rekja má þessa breytingu á hegðun bjarnanna til loftslagsbreytinga. Ísinn sem birnirnir dvelja yfirleitt á minnkar og því neyðast þeir til að leita inn á land til að finna fæðu. Hana geta þeir fundið í bæjum eyjaklasans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×