Vegna mikils kulda þarf að loka útisvæði Sundhallar Selfoss fimmtudag til sunnudags en innilaugunum verður haldið opnum þessa daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu Árborg en þar segir að sundlaugin á Stokkseyri verði opin í dag, fimmtudag til kl. 18:30 en lokuð föstudag til sunnudags. Stefnt er á að opna báðar laugar að fullu næstkomandi mánudag 4. febrúar samkvæmt opnunartíma.
Verði aðstæður metnar betri af Selfossveitum verður reynt að opna fyrr. Íbúar og gestir eru beðnir velvirðingar á þessum lokunum en þær eru sagðar tengjast miklum kulda undanfarna daga.
Þá er einnig búið að loka sundlaugunum á Hellu, Laugalandi og Hvolsvelli en ákveðið hefur verið að loka hluta lauga og potta í Þorlákshöfn yfir mestu frosthörkuna.
Dagný Sif Ómarsdóttir sundlaugarvörður á Hellu segir að opið hafi verið í heitu pottana á Hellu frá klukkan hálf sjö til átta í morgun.
„Það skilja þetta nú allir en það er opið hjá okkur í rækt og íþróttasalnum. Hefur þetta gerst áður? Já, þetta gerðist í nóvember og desember í fyrra.“
Dagný segir að það sé tíu stiga frost á Hellu. Líklega verði lokað yfir helgi. Magnús Halldórsson, starfsmaður í sundlauginni á Hvolsvelli, segir óvíst hvenær laugin þar verði opnuð aftur vegna skorts á heitu vatni á svæðinu. Hann vonar þó að ástandið verði betra nú en í fyrra, en þá þurfti að loka lauginni í 29 daga.
Loka sundlaugum í Árborg vegna kulda

Tengdar fréttir

Segir að kuldinn geti ekki talist mikill og því viti það varla á gott að Veitum sé brugðið
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, fjallar um kuldann sem verið hefur undanfarna daga á höfuðborgarsvæðinu, og víðar, á bloggsíðu sinni Hungurdiskum og segir að kuldinn geti varla talist mikill.