Það hefur sýnt sig að menntun erlendis færir bæði landi og þjóð efnahagslegan ávinning þar sem fyrirtæki landsins fá bæði aukna og nýja færni sem og þekkingu.
Frá námsárinu 2013-2014 hefur hins vegar verið dregið gríðarlega úr hvatanum til að leita sér menntunar erlendis eftir að niðurskurður hófst á námslánum til framfærslu frá LÍN til námsmanna erlendis. Þannig var skerðingin á milli áranna 2013 og 2016 upp á tugi prósenta í meira en 40 löndum. Það var því jákvætt þegar ný stjórn LÍN tók stefnubreytingu með ákvörðun sinni um að skerða ekki námslán til námsmanna erlendis fyrir skólaárið 2018-2019 þrátt fyrir tillögu Analytica þar um. Analytica er áhættu- og fjárfestingarráðgjafafyrirtæki sem sér um að reikna út framfærslu fyrir námsmenn erlendis fyrir stjórn LÍN.

Þá hefur námsmönnum erlendis með námsaðstoð frá LÍN fækkað gríðarlega hratt síðustu árin. Þannig voru þeir 2333 fyrir skólaárið 2012-2013 en fyrir skólaárið 2015-2016 voru þeir komnir niður í 1727. Þeim hefur því fækkað um 606 á þessu tímabili eða um meira en fjórðung. Ekki verður annað séð en þeim muni halda áfram að fækka nema eitthvað verði að gert.
Á sama tíma hefur stóraukinn fjöldi námsmanna ákveðið að sækja námsaðstoð til norrænna lánasjóða. Staðan er í raun sú í dag að fleiri íslenskir námsmenn á Norðurlöndunum sækja námsaðstoð til norrænna lánasjóða heldur en til LÍN sem er ekkert annað en áfellisdómur á lánasjóðinn íslenska.
Krafa SÍNE er einföld og skýr, að framfærsla frá LÍN endurspegli raunverulega framfærslu námsmanna erlendis.
Jóhann Gunnar Þórarinsson
Stjórnarformaður SÍNE
Þessi grein er hluti af greinaröð herferðar Landssamtaka íslenskra stúdenta um bættan Lánasjóð íslenskra námsmanna. Berjumst saman fyrir #betraLÍN