Erlent

Þriggja ára drengur fannst á lífi eftir að hafa horfið úr garði ömmu sinnar

Sylvía Hall skrifar
Casey hafði verið úti að leika ásamt tveimur öðrum börnum þegar hann skilaði sér ekki heim.
Casey hafði verið úti að leika ásamt tveimur öðrum börnum þegar hann skilaði sér ekki heim. Facebook
Þriggja ára drengur, Casey Hathaway, hvarf á þriðjudag úr garði ömmu sinnar í Norður-Karolínu fylki í Bandaríkjunum eftir að hafa leikið sér þar ásamt tveimur öðrum börnum. Leit að Hathaway hófst eftir að hann skilaði sér ekki heim með hinum börnunum.

Amma drengsins hafði leitað hans í rúmar 45 mínútur ásamt áhyggjufullum nágrönnum þegar ákveðið var að tilkynna hvarfið til lögreglu. Í kjölfarið hófst umfangsmikil leit við slæmar aðstæður en mikil rigning og vindur var á svæðinu. Áhersla var lögð á að leita í skóglendi nærri heimili ömmunnar.

„Þegar fór að rökkva varð mjög óhugnanlegt þarna. Ég get ekki ímyndað mér þriggja ára barn þarna,“ sagði Donna Harris, einn sjálfboðaliða, í samtali við WTVD. Leitaraðilar sögðu drenginn illa klæddan og höfðu áhyggjur af skurðum og holum á svæðinu.

Á fimmtudagskvöld fundu leitaraðilar drenginn og var hann fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi. Hann var við góða heilsu þegar hann fannst og segja fjölskyldumeðlimir hann vera glaðan og rólegan miðað við aðstæður.

„Casey er við góða heilsu, brosandi og talandi. Hann segist hafa verið með skógarbirni í tvo daga. Guð gaf honum vin til að tryggja öryggi hans,“ skrifaði Breanna Hathaway, frænka drengsins, á Facebook-síðu sína og sagði þetta vera kraftaverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×