Erlent

Vilja geta sett her­lög á eyju norðan Ís­lands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Jan Mayen. Norðmenn lýstu eyjuna sem hluta af konungsríkinu Noregi árið 1930. Áður höfðu þeir komið á fót veðurathuganastöð þar árið 1922.
Frá Jan Mayen. Norðmenn lýstu eyjuna sem hluta af konungsríkinu Noregi árið 1930. Áður höfðu þeir komið á fót veðurathuganastöð þar árið 1922. Forsvaret

Norsk stjórnvöld hafa vegna óvissu í varnar- og öryggismálum kynnt áform um að lög um herlögreglu verði látin gilda á Jan Mayen. Breytingin þýddi að Norðmenn gætu framfylgt herlögum á þessari nágrannaeyju Íslands.

Í kvöldfréttum Sýnar mátti sjá myndir frá Jan Mayen. Stysta fjarlægð milli Noregs og Jan Mayen er 920 kílómetrar en mun styttra er milli Íslands og Jan Mayen eða 560 kílómetrar.

Staðsetning Jan Mayen og fjarlægðir til eyjunnar frá Grænlandi, Íslandi og Noregi.grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

Það er þó enn styttra milli Jan Mayen og Grænlands, eða 460 kílómetrar, og þegar Norðmenn horfa núna upp á efasemdir um eignarhald Dana á Grænlandi þarf ekki að koma á óvart að þeir vilji treysta yfirráð sín yfir Jan Mayen.

Með 2.277 metra hátt eldfjallið Beerenberg sem hæsta punkt líkist þessi eldfjallaeyja einna mest Íslandi. Klettaströndin þar gæti allt eins verið á Snæfellsnesi og svartar sandstrendurnar minna á þær íslensku á Suðurlandi. Hraunin og mosinn á Jan Mayen líta út eins og við værum á Reykjanesskaga og eldgígarnir sömuleiðis.

Um tuttugu manns dvelja að jafnaði á Jan Mayen í bækistöð norska hersins.Forsvaret

Engin föst búseta er á Jan Mayen en norski herinn er þar með bækistöð þar sem um tuttugu starfsmenn dvelja að jafnaði, flestir á vegum hersins. Þar er einnig flugbraut sem nýtist þegar flytja þarf vistir og mannskap milli Noregs og Jan Mayen.

Hercules-flugvél norska hersins á flugvellinum á Jan Mayen.Forsvaret

Norska varnarmálaráðuneytið hefur núna kynnt frumvarp þess efnis að lög um herlögreglu verði útvíkkuð til að þau gildi á Jan Mayen. Í samráðsgátt er þó hvergi minnst á Grænlandsmálið heldur vísar ráðuneytið almennt til krefjandi og óvissrar stöðu í öryggismálum. 

Nái breytingin fram að ganga yrði unnt að koma á fót hernaðarsvæði á Jan Mayen og framfylgja herlögum á eynni, eins og lýst er hér í frétt Sýnar:

Jan Mayen var talsvert í fréttum í tengslum við útboð Íslendinga á olíuleit á Drekasvæðinu. Jan Mayen-samkomulag Íslands og Noregs gerir ráð fyrir að ríkin deili með sér nýtingu auðlinda á svokölluðu samvinnusvæði sem nær yfir lögsögu beggja.

Árið 2009 heimsótti olíumálaráðherra Noregs eyjuna til að boða þar olíuleit, eins og rifja má upp í þessari frétt:

Árið 2011 sendi Olíustofnun Noregs sérsmíðað olíuleitarskip á Jan Mayen-hrygginn, sem fjallað var um hér:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×