Erlent

Síðustu ellefu ár þau hlýjustu í mælingasögunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Orsök þeirrar hnattrænu hlýnunar sem nú á sér stað á jörðinni er stórfelld losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum eins og þeirra sem prumpast út úr þessu kolaorkuverði í Kansas í Bandaríkjunum.
Orsök þeirrar hnattrænu hlýnunar sem nú á sér stað á jörðinni er stórfelld losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum eins og þeirra sem prumpast út úr þessu kolaorkuverði í Kansas í Bandaríkjunum. AP/Charlie Riedel

Árið í fyrra var það þriðja hlýjasta frá upphafi mælinga og undanfarin ellefu ár eru þau ellefu hlýjustu sem um getur. Meðalhitinn í fyrra slagaði hátt í neðri mörk Parísarsamkomulagsins.

Bæði Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) og Kópernikus, loftslagsstofnun Evrópusambandsins, staðfestu í dag að árið 2025 hefði verið það þriðja hlýjasta frá því að samfelldar mælingar hófust um miðja 19. öld. Árin 2024 og 2023 eru þau hlýjustu en 2025 var lítillega svalara en árið 2023.

Meðalhiti jarðar var þá 1,44 gráðum yfir meðaltali tímabilsins fyrir iðnbyltingu. Metnaðarfyllra markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 gráður til lengri tíma litið.

Tölurnar sem WMO styðst við koma úr átta gagnasöfnum. Í tveimur þeirra var árið 2025 talið það annað hlýjasta í sögunni en það þriðja hlýjasta í sex þeirra.

Síðustu þrjú ár eru þau þrjú hlýjustu í sögunni í öllum gagnasöfnunum og árin 2015 til 2025 eru þau ellefu hlýjustu sem um getur.

La niña dugði ekki til að draga árið lengra niður

Nýliðið ár var á meðal þeirra allra hlýjustu þrátt fyrir áhrif La niña-veðurfyrirbrigðisins. Það er náttúruleg sveifla í Kyrrahafi sem hefur almennt svalara loftslag í för með sé á hnattræna vísu en andstæðan, El niño.

Ástæðan er hröð uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar sem menn bera ábyrgð á með stórfelldri losun sinni.

Sjávarhiti var einnig í hæstu hæðum í fyrra samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem voru birtar í vísindaritinu Advances in Atmospheric Sciences. Þær fréttir eru ekki óvæntar þar sem áætlað er höfin hafi tekið við um níutíu prósent þeirrar hnattrænu hlýnunar sem menn hafa valdið.

Aukinn sjávarhiti hefur áhrif á vistkerfi í sjónum. Ekki síst geta hitabylgjur í sjónum leikið grátt kóralrif sem aragrúi lífvera reiðir sig á.

Hlýjasta árið á Íslandi til þessa

Árið 2025 var það hlýjasta á Íslandi í mælingasögunni, 1,1 gráðu yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands. Sérstaklega setti fordæmalaus hitabylgja í maí svip sinn á árið en vorið í heild var það hlýjasta frá upphafi.

Hnattræn hlýnun er talin hafa gert hitabylgjuna í maí þremur gráðum en hún hefði annars verið og fjörutíu prósent líklegri samkvæmt úttekt sem hópur vísindamanna gerði í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×