Innlent

Hótaði lögreglu lífláti og kynferðislegu ofbeldi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. Fréttablaðið/Pjetur
Karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni. Honum var gefið að sök að hafa hótað lögreglumönnum eftir að hafa verið handtekinn í Vestmannaeyjum febrúar á síðasta ári.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa bitið lögreglumann í handarbakið er hann var handtekinn, með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hlaut bitfar, um tvo sentimetra í þvermál.

Eftir að maðurinn var færður á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum hótaði hann að beita lögreglukonu sem þar var kynferðislegu ofbeldi, auk þess sem að hann sagði við hana að hún myndi hvergi vera óhult.

Þá hótaði hann sama lögreglumanninum og hann beit, lífláti, ásamt þriðja lögreglumanninum, er þeir voru við skyldustörf.

Við þingfestingu málsins lýsti maðurinn því yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjenda. Þá viðurkenndi hann skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin sök í ákæru.

Var maðurinn því sem fyrr segir dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, sem falla mun niður haldi maðurinn skilorð í tvo ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×