Erlent

Bróðir uppljóstrara sem felldi meðlimi Ndrangheta mafíunnar myrtur á Sikiley

Andri Eysteinsson skrifar
Frá aðgerðum ítölsku lögreglunnar vegna Ndrangheta mafíunnar á árinu.
Frá aðgerðum ítölsku lögreglunnar vegna Ndrangheta mafíunnar á árinu. EPA/ Elisabetta Baracchi
Hinn 51 árs gamli Marcello Bruzzese var myrtur í heimabæ sínum Pesaro á Sikiley á jóladag. Bruzzese var bróðir uppljóstrarans Girolamo Bruzzese sem samdi við yfirvöld og veitti upplýsingar um starfsemi Ndrangheta mafíunnar sem eru ein áhrifamestu glæpasamtök heims.

Samkvæmt lögreglu sátu tveir hettuklæddir menn með klúta fyrir vitum sér um Bruzzese og skutu 20 skotum hið minnsta að honum.

Að sögn lögreglu var Marcello Bruzzese ekki meðlimur neinna glæpasamtaka og hafði flutt til bæjarins Pesaro fyrir þremur árum síðan. Lögreglan rannsakar nú hvort tengsl séu milli uppljóstrana Girolamo Bruzzese og morðsins á Marcello.

Talið er líklegt að um hefnd samtakanna hafi verið að ræða.

Marcello og Girolamo Bruzzese voru synir Domenico Bruzzese undirmanns mafíuforingjans Teodoro Crea. Eftir andlát föðurs síns gekk Girolamo til liðs við annað gengi og eftir átök reyndi hann að ráða Crea af dögum.

Eftir morðtilraunina hélt Girolamo til lögreglu þar sem hann veitti upplýsingar sem felldu fjölmarga meðlimi Ndrangheta mafíunnar, þar á meðal virta stjórnmálamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×