George Pell kardináli hefur verið sakfelldur vegna kynferðisbrota í heimalandi sínu Ástralíu. Pell hefur verið einn valdamesti maðurinn innan kaþólsku kirkjunnar og er sá hæst setti sem hefur verið dæmdur fyrir slík brot.
Washington Post segir að refsing Pell verði ákvörðuð í febrúar og að réttað verði aftur yfir honum vegna fleiri brota á næsta ári. Pell hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Páfagarður lýsti því yfir í gær að Frans páfi hefði rekið Pell úr kardinálaráði sínu ásamt Francisco Javier Errázuriz Ossa, kardinála frá Síle, sem sakaður er um að hafa hylmt yfir kynferðisbrot presta.
Sakfelling Pell nú er sögð tengjast ásökunum um misnotkun tveggja kórdrengja á 10. áratugnum. Ekki hefur verið greint opinberlega frá málinu vegna lögbanns sem dómstóllinn setti á umfjöllun.
Annar háttsettur fulltrúi kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu, Philip wilson, fyrrverandi erkibiskup í Adelaide, var sýknaður af ákæru um að hafa hylmt yfir misnotkun prests á tveimur altarisdrengjum í síðustu viku.
Einn valdamesti maður kaþólsku kirkjunnar sakfelldur vegna kynferðisbrota

Tengdar fréttir

Réttað yfir fjármálastjóra Páfagarðs vegna fjölda kynferðisbrota
Ástralskur dómari hefur úrskurðað að næg sönnunargögn liggi fyrir til að rétta yfir kardinálanum George Pell vegna kynferðisbrota gegn börnum en hann er fjármálastjóri Páfagarðs. Pell, sem hefur verið kallaður þriðji æðsti ráðamaður Vatíkansins, neitaði sök fyrir rétti í morgun.

Réttarhöld hafin yfir einum af nánustu ráðgjöfum páfans
Yrti ekki á fjölmiðlamenn er hann gekk inn í réttarsal í Ástralíu.

Kerfisbundið barnaníð í Ástralíu
Skýrsla upp úr fimm ára rannsókn ástralskrar rannsóknarnefndar birtist í gær. Hún sýnir fram á að alvarlegum brotum hafi verið leyft að viðgangast innan helstu samfélagsstofnana Ástralíu.