Að minnsta kosti 631 er enn saknað í norðurhluta Kaliforníu vegna Camp-skógareldanna sem þar hafa riðið yfir. Tala látinna hækkar hvern einasta dag og stóð í 63 í gær. Að því er kom fram á vef Los Angeles Times í gær hefur ekki tekist að hefta útbreiðslu eldanna nema um fjörutíu prósent svo ljóst er að ástandið er enn alvarlegt. Þá hafa fleiri eldar kviknað í Kaliforníu undanfarna daga.
Eins og áður hefur komið fram varð bærinn Paradise einna verst úti í hamförunum. Bærinn í rauninni gjöreyðilagðist og brann til grunna. Brock Long, stjórnandi hamfaravarna Bandaríkjanna, sagði að tilfelli Paradise væri eitt það versta sem hann hefði nokkurn tímann séð og BBC hafði eftir embættismönnum að þörf væri á allsherjarenduruppbyggingarstarfi sem gæti tekið fleiri ár að klára.
Til viðbótar við tölu látinna í norðurhluta ríkisins hafa þrír farist í Woolsey-eldunum sem geisa í Los Angeles- og Ventura-sýslum í suðurhluta ríkisins. Betur hefur tekist að hefta útbreiðslu þeirra en hún hefur þó ekki verið heft nema að 62 prósentum.
