Innlent

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa í dag

Sylvía Hall skrifar
Dagurinn er einnig tileinkaður viðbragðsaðilum sem kallaðir eru á vettvang.
Dagurinn er einnig tileinkaður viðbragðsaðilum sem kallaðir eru á vettvang. Samgöngustofa
Í dag fer fram athöfn í tilefni alþjóðlegs minningardags um fórnarlömb umferðarslysa. Þetta er sjöunda árið þar sem slík athöfn fer fram hér á landi og fórnarlamba umferðarslysa er minnst en dagurinn er einnig tileinkaður viðbragðsaðilum sem kallaðir eru á vettvang.

Samgöngustofa og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið standa að baki viðburðinum ásamt öðrum sjálfboðaliðum en tilgangurinn dagsins er meðal annars til þess að hvetja fólk til þess að leiða hugann að tilefninu og ekki síður þeirri ábyrgð sem hver og einn ber í umferðinni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, flytur ávarp og segir frá tilefni dagsins en hann missti sjálfur foreldra sína í umferðarslysi í Svínahrauni í nóvember árið 1987. Þóranna M. Sigurbergsdóttir mun einnig flytja ávarp en hún og eiginmaður hennar misstu son sinn Sigurjón aðeins 17 ára gamlan í umferðarslysi á Reykjanesbraut árið 1996 en Sigurjón þeirra hefði orðið 40 ára í dag.

Athöfnin fer fram í dag og hefst hún klukkan 16:00 við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi. Rétt er að vekja athygli á því að klukkan 15:40 mun þyrla landhelgisgæslunnar lenda á þyrlupallinum og í kjölfarið verður ökutækum viðbragðsaðila stillt upp við hlið hennar. Boðið verður upp á léttar veitingar þegar dagskrá lýkur.  

Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu hafa 1564 einstaklingar látist í umferðinni hér á landi frá upphafi bílaaldar árið 1915. Um 4 þúsund einstaklingar láta lífið í umferðarslysum í heiminum á degi hverjum og hundruð þúsunda slasast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×