Innlent

Vill láta reisa minnismerki um þá sem látist hafa í umferðinni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Alþjóðlegur minningardagur þeirra sem látist hafa í umferðinni var haldinn á þyrlupallinum við Landspítalann í Fossvogi í dag í sjöunda sinn.

Frá því að fyrsta banaslysið varð hér á landi árið 1915 hafa 1564 einstaklingar látist í umferðinni. Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, missti foreldra sína í bílslysi árið 1987.Vísir/Skjáskot
Fjöldi fólks kom saman til athafnarinnar í dag, bæði viðbragðs- og björgunaraðilar en einnig aðstandendur fólks sem látist hefur í umferðinni. Dagurinn er einnig hugsaður sem vitundarvakning fyrir almenning og einnig til að heiðra viðbragðsaðila.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, flutti ávarp í tilefni dagsins en hann missti sjálfur foreldra sína í bílslysi í Svínahrauni árið 1987. Hann lagði meðal annars til í ræðu sinni að við þyrlupallinn yrði reist minnismerki um þá sem látist hafa í umferðinni.

„Þetta er alþjóðlegur dagur og við höfum haldið þennan viðburð árlega á þessum stað,“ segir Sigurður Ingi. „Væri ekki gott að við hefðum einhvern ramma utan um þennan viðburð? Eitthvað sem gæti vakið okkur hin sem eru í samfélaginu til umhugsunar af því að það er tilgangurinn með deginum.“

Sonur Þórönnu M. Sigurbergsdóttir lést í bílslysi árið 1996. hann hefði orðið 40 ára í dag.Vísir/Skjáskot
Þóranna M. Sigurbergsdóttir og eiginmaður hennar Steingrímur Ágúst Jónsson misstu son sinn, Sigurjón Steingrímsson, aðeins 17 ára gamlan í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni árið 1996 en hann hefði orðið fertugur í dag. Í ávarpi sínu velti hún því fyrir sér hvernig maður hann væri í dag hefði hann lifað. 

Hún segir það hafa tekið tíma að takast á við missinn og sorgina en hún, ásamt tveimur vinkonum sem einnig hafa misst syni, skrifaði bókina Móðir, miss­ir, mátt­ur til að takast á við söknuðinn.

Sigurjón lést eftir að hafa keyrt yfir á öfugan vegarhelming á Reykjanesbrautinni en Þóranna hvetur annað fólk til að vera á varðbergi í umferðinni svo það þurfi ekki að upplifa sama missi og hún gerði.

„Ég veit ekki hvað gerðist. Þetta gerðist á góðviðrisdegi og hann var vel sofinn,“ segir hún um daginn örlagaríka. „Bara augnabliks aðgæsluleysi getur verið afdrifaríkt. Jafnvel leitt til dauða. Að horfa í aðra átt, að teygja sig eftir einhverju. Hvað þá núna þegar fólk er með farsíma og allskonar truflun í gangi. Vera vakandi í umferðinni og láta ekki trufla sig“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×