Erlent

Telja að tvífari Ross sé í London

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn grunaði glæpamaður er sá til vinstri, en David Schwimmer er sá til hægri. Eða var það öfugt?
Hinn grunaði glæpamaður er sá til vinstri, en David Schwimmer er sá til hægri. Eða var það öfugt?
Lögregla í London tekur nú þátt í leitinni að tvífara bandaríska leikarans David Schwimmer eftir að lögregla í Blackpool birti mynd af honum úr öryggismyndavél.

Lögregla í Blackpool telur víst að maðurinn, sem grunaður er um þjófnað í borginni, sé frá og hafist við í London.

Netheimar loguðu eftir að Blackpool-lögreglan lýsti eftir manninum þar sem hann þótti sláandi líkur persónunni Ross úr þáttunum Vinum. Schwimmer fór með hlutverk Ross í þáttunum sem framleiddir voru á árunum 1994 til 2004.

„Við vinnum með kollegum okkar í Lundúnalögreglunni að því að hafa hendur í hári hans og handtaka,“ segir talskona lögreglunnar í Blackpool. „Við teljum að maðurinn sem náðist á öryggismyndavél sé frá London.“

Schwimmer tók sjálfur boltann á lofti og lýsti yfir sakleysi sínu þar sem hann sagðist ekki hafa verið í Blackpool á þeim tíma sem myndin úr öryggismyndavélinni náðist. Birti hann myndband á samfélagsmiðlum sem sagt var úr öryggismyndavél verslunar í New York þar sem mátti sjá Schwimmer haldandi á kassa af bjór, alveg eins og tvífarinn. „Lögreglumenn, ég sver að þetta var ekki ég. Eins og þið sjáið þá var ég í New York.“

Maðurinn sem lögreglan leitar að er grunaður um að hafa stolið jakka, síma og veski á veitingastaðnum Mr Basrai's í Blackpool þann 20. september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×