Innlent

Verndarsjóður kynnir kosti fiskeldis á landi eða í lokuðum sjókvíum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sjókvíaeldi á laxi er umdeilt. Myndin er frá Súgandafirði.
Sjókvíaeldi á laxi er umdeilt. Myndin er frá Súgandafirði. Nordicphotos/Getty
Verndarsjóður villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund, hóf á fimmtudag kynningarátakið Á móti straumnum. Er það um kosti þess að stunda fiskeldi á landi eða í lokuðum sjókvíum.

„Markmið átaksins er að kynna kosti fiskeldis í lokuðum sjókvíum, sem er hvort tveggja í senn öruggt og umhverfisvænt,“ er haft eftir talsmanni átaksins, Gísla Sigurðssyni íslenskufræðingi, í fréttatilkynningu.

„Fiskeldi er mikilvæg atvinnugrein og mun hafa veigamiklu hlutverk að gegna þegar fram líða stundir. Ísland er ákjósanlegur staður til að byggja upp öflugt fiskeldi en það er mikilvægt að stunda fiskeldi í sátt við náttúruna og án þess að það skaði ímynd og orðspor Íslands,“ er áfram haft eftir Gísla.

Í fréttatilkynningunni segir að talsverð umfjöllun hafi verið um fiskeldi í opnum sjókvíum við Ísland. „Minna hefur farið fyrir umræðu um heilbrigt og um­hverfis­vænt fiskeldi í lokuðum sjókvíum eða um eldi á landi. Markmið kynningarátaksins er að upplýsa frekar um neikvæð umhverfisáhrif opinna eldiskvía í sjó og kosti fiskeldis á landi og í lokuðum sjókvíum, sem er hvort tveggja í senn öruggara og um­hverfis­vænna.“

Eins og fyrr segir hófst átak Verndarsjóðs villtra laxastofna á fimmtudaginn. Var þá haldinn fundur í Norræna húsinu þar sem Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri AkvaFuture, fjallaði um fiskeldi í lokuðum sjókvíum og Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis- og fiskiræktarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, ræddi um áhættu af erfðablöndun vegna fiskeldis í opnum sjókvíum. 


Tengdar fréttir

Kokkar biðja Arnarlax afsökunar

Klúbbur matreiðslumeistara og Arnarlax segjast hafa náð sáttum í máli sem reis eftir að undirritaður var samstarfssamningur milli kokkalandsliðsins og Arnarlax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×