Erlent

Facebook, NBC og Fox hætta að sýna auglýsinguna sem CNN neitaði að birta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mexíkóski glæpamaðurinn Luis Bracamontes var dæmdur til dauða fyrir morðin á tveimur lögreglumönnum í Kaliforníu árið 2014. Í auglýsingu Trumps er reynt að tengja glæpi hans við innflytjendur sem eru nú á leið til Bandaríkjanna.
Mexíkóski glæpamaðurinn Luis Bracamontes var dæmdur til dauða fyrir morðin á tveimur lögreglumönnum í Kaliforníu árið 2014. Í auglýsingu Trumps er reynt að tengja glæpi hans við innflytjendur sem eru nú á leið til Bandaríkjanna. Getty/Randy Pench
Samfélagsmiðillinn Facebook og bandarísku sjónvarpsstöðvarnar NBC og Fox News hyggjast hætta sýningum á umdeildri auglýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Auglýsingin fjallar um innflytjendamál og þykir þrungin kynþáttafordómum. Sjónvarpsstöðin CNN hafði áður neitað að sýna auglýsinguna á rásum sínum.

Auglýsingunni er ætlað að vekja athygli á harðri og óvæginni afstöðu Bandaríkaforseta í innflytjendamálum. Í henni er reynt að tengja brot mexíkóska glæpamannsins Luis Bracamonte, sem kom ólöglega til Bandaríkjanna og myrti tvo lögreglumenn í Kaliforníuríki árið 2014, við hópa innflytjenda frá Mexíkó sem eru nú á leið til Bandaríkjanna. Enginn fótur virðist vera fyrir þeirri tengingu.

Í yfirlýsingu sem Facebook sendi frá sér í dag segir að auglýsingin brjóti í bága við reglur samfélagsmiðilsins. Notendum mun áfram vera leyft að birta auglýsinguna á síðum sínum en þeir munu ekki geta greitt fyrir dreifingu á henni á miðlinum.

Þá lýstu sjónvarpsstöðvarnar NBC og Fox News því einnig yfir í dag að þær hygðust hætta sýningum á auglýsingunni. Sú fyrrnefnda, NBC, var harðlega gagnrýnd á sunnudag fyrir að sýna auglýsinguna í leikhléi á leik í bandarísku NFL-deildinni. Á meðal þeirra sem létu í sér heyra voru bandaríska leikkonan Debra Messing og leikstjórinn Judd Apatow.

Sonur Bandaríkjaforseta, Donald J. Trump, vakti athygli á áðurnefndri auglýsingu föður síns á Twitter-reikningi sínum um helgina. Hann sagði þar að CNN hefði neitað að sýna auglýsinguna og sakaði stöðina um að birta aðeins falsfréttir. Samskiptadeild CNN svaraði tísti Trumps yngri og sagði það áður hafa komið skýrt fram að auglýsingin yrði ekki birt sökum þess að hún hafi þótt rasísk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×