Ríkisútvarpið er með mál Björns Braga Arnarsson til skoðunar en Björn Bragi hefur undanfarin ár verið spyrill í spurningaþættinum Gettu betur.
Björn birti yfirlýsingu á Facebook þar sem hann baðst afsökunar á því að hafa káfað á sautján ára unglingsstúlku um liðna helgi.
Myndband af atvikinu, sjö sekúndna langt, var í dreifingu á samfélagsmiðlum í gær en atvikið átti sér stað á veitingastað á Akureyri aðfaranótt sunnudagsins.
Björn Bragi hefur undanfarin ár verið spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur.
Á samfélagsmiðlum hefur komið fram áskorun til RÚV um að setja Björn Braga af sem spyril Gettu Betur í ljósi þessa máls.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, aðstoðardagskrárstjóri Sjónvarpsins, segir í samtali við Vísi að mál Björns Braga sé til skoðunar og vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, segir Ríkisútvarpið að sjálfsögðu meðvitað um málið.
„Og erum með það til skoðunar eins og gefur að skilja. Meira gerum við ekki gefið upp að svo stöddu.“
Ég gjörsamlega algjörlega tjúllast ef ungir kvenkyns keppendur í Gettu betur þurfi að líða það að umgangast einhvern sem hegðar sér svona. Svo ekki sé talað um upphafningu nauðgunarmenningar almennt. Ef þið eruð sammála, vinsamlegast sendið eitthvað á RÚV.
— j. frímann fan club (@kakobolli) October 29, 2018