Erlent

Mikilvægustu þingmennirnir gagnrýna ummæli Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci
Þrír af mikilvægustu þingmönnum Repúblikanaflokksins um þessar mundir hafa gagnrýnt Donald Trump, forseta, fyrir að hæðast að Christine Blasey Ford, sem sakað hefur Brett Kavanaugh um að hafa reynt að nauðga sér á þeirra yngri árum. Þau Jeff Flake, Lisa Murkowski og Susan Collins hafa öll lýst yfir efasemdum um tilnefningu Kavanaugh til Hæstaréttar Bandaríkjanna, en Repúblikanar mega ekki við því að fleiri en einn þingmaður flokksins veiti Kavanaugh ekki atkvæði.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, sagði að kosið yrði um tilnefningu Kavanaugh í vikunni.

Á fundi með stuðningsmönnum sínum í gær sagði Trump að andstæðingar hans hefðu verið að reyna að eyðileggja Kavanaugh alveg frá því að forsetinn tilnefndi hann í æðsta dómstól Bandaríkjanna. Áhorfendur hlógu þegar Trump hélt svo áfram:

„Þetta gerðist fyrir 36 árum: Ég drakk einn bjór! Heldurðu að það gæti verið...? Nei! Það var einn bjór. Allt í lagi, gott. Hvernig komstu þér heim? Ég man það ekki. Hvernig komstu þér á staðinn þar sem þetta gerðist? Ég man það ekki. Hvar gerðist þetta? Ég man það ekki. Fyrir hversu löngu síðan var þetta? Ég man það ekki. Ég man það ekki. Ég man það ekki! Ég man það ekki! En ég fékk mér einn bjór. Það er það eina sem ég man. Og líf eins manns er nú í rúst.“

Sjá einnig: Trump hæddist að vitnisburði Blasey Ford



Þessi málflutningur Trump nú er í ósamræmi við það sem hann sagði fyrst eftir að Blasey Ford kom fyrir dómsmálanefndina. Þá sagði forsetinn að vitnisburður hennar hefði verið mjög sannfærandi og lýsti henni sem ágætri konu.

Collins ræddi stuttlega við blaðamenn í dag, eftir að hún hafði fengið lögregluþjóna til að vísa þeim á brott skömmu áður, og sagði einfaldlega að það hefði verið rangt af forsetanum að segja það sem hann sagði í gær. Hún neitaði að svara spurningum um hvort atvikið hefði áhrif á atkvæði hennar.

Murkowski sagði blaðamönnum nú fyrir skömmu að ummælin hefðu verið óásættanleg. Hún sagðist ætla að taka ummælin inn í reiknings sinn þegar kæmi að því að greiða atkvæði um tilnefningu Kavanaugh. Hún tæki allt inn í reikninginn.

Flake var í sjónvarpsviðtali í dag og sló hann á svipaða strengi.

„Þetta var hvorki staður né stund fyrir ummæli sem þessi, að ræða eitthvað svo viðkvæmt á svona fundi. Þetta var bara ekki rétt. Ég óskaði þess að hann hefði ekki gert þetta. Þetta er eiginlega skelfilegt.“

Þrátt fyrir það segir Flake að ummælin muni ekki hafa áhrif á atkvæði hans. Ekki væri rétt að láta „ónærgætin“ ummæli Trump koma niður á Kavanaugh.

Trump lýsti því yfir á Twitter í dag að hann sjái hve reiðir kjósendur séu í hvert sinn sem hann fari á fundi sem þennan í gær. Þeir séu ævareiðir yfir því hve „viðurstyggilega“ Demókratar hafa komið fram við Kavanaugh og að dómarinn og fjölskylda hans eigi mikið betra skilið.

Helstu stuðningsmenn og starfsmenn forsetans hafa stigið fram og sagt að Trump hafi ekki sagt neitt rangt í gær. Kellyanne Conway sagði til dæmis í dag á Fox að Trump hefði einungis verið að benda á ósamræmi í sögu Ford. Hún hafi viðurkennt að hún muni ekki almennilega eftir atvikinu. Það er þó ljóst að ummæli Trump voru ekki í samræmi við vitnisburð Ford.


Tengdar fréttir

Bréf dómaraefnisins gefur innsýn í drykkjuskap á námsárunum

Brett Kavanaugh, hæstaréttardómaraefni Trump Bandaríkjaforseti, hefur gert lítið úr drykkju sinni á námsárunum. Í bréfi sem hann skrifaði á þeim tími lýsti hann þó vinahóp sínum sem „háværum og óþolandi fyllibyttum“.

Vilja að Kavanaugh berjist af krafti

Vitnisburður Kavanaugh féll í kramið hjá Repúblikönum og Donald Trump en hefur þó leitt til þess að spurningar hafa vaknað um skapgerð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×