Í tilkynningu frá bankanum segir að umhverfisstyrkjunum sé ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar.
„Dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið,“ segir í tilkynningunni og bætt við að í dómnefndinni hafi setið Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í Umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð og Dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.
Eftirtaldir hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans að þessu sinni:
650.000 króna styrkir
- Landsskógar ehf. – Responsible Iceland
Styrkurinn er veittur til verkefnisins „Responsible Iceland“ sem gengur út á að fá ferðamenn til að jafna kolefnisfótspor sitt vegna ferðalaga með framlagi til skógræktar og/eða annarrar landbætingar.
- Endurhæfingarmiðstöð fyrir slasaða villta fugla - Diana Divileková
Styrkurinn er veittur til að útbúa aðstöðu til meðhöndlunar og endurhæfingar á slösuðum eða veikum ránfuglum.
- Landvernd – Námsefni um matarsóun fyrir grunnskólanema
Styrkurinn er veittur til að útbúa námsefni fyrir miðstig grunnskóla um matarsóun.
- Björgunarsveitin Ársæll – Hreinsun strandlengju höfuðborgarsvæðisins
Björgunarsveitin Ársæll hlýtur styrk til að hreinsa plast og annað rusl úr sjónum og meðfram strandlengjunni við höfuðborgarsvæðið.
300.000 króna styrkir
- Vistorka – Græna trektin
Styrkurinn er veittur til að auka útbreiðslu á grænu trektinni, sem er olíu og fitusöfnunarílát fyrir heimili. Fitunni og olíunni er svo breytt í umhverfisvænt eldsneyti sem kallast Lífdísill.
- Þorvarður Árnason – Hopun jökla á Suðausturlandi
Styrkurinn er veittur til að gera fræðslu- og kynningarefni um hopun íslenskra jökla af völdum loftslagsbreytinga.
- Alda Jónsdóttir – Bætt aðgengi að Sveinsstekksfossi
Styrkurinn er veittur til að bæta merkingar við Sveinsstekksfoss. Fossinn fellur í Fossá í Fossárdal í Berufirði og verða skilti sett upp við helstu áningar- og útsýnisstaði með upplýsingum um hættur sem ber að varast og öruggar leiðir.
- Jökuldalur – Stuðlagil, aðgengi og öryggi
Styrkurinn er veittur til að bæta aðstöðu við Stuðlagil. Stuðlagil er í árfarvegi Jökulsár á Dal og aðgengi liggur um snarbratt gilið. Nauðsynlegt er að auka öryggi fólks og bæta aðkomu og aðgengi á staðnum þar sem vitund um hið stórfengna Stuðlagil hefur aukist til muna á síðustu árum.
- Ferðafélag Fljótsdalshéraðs - Sjálfbærar Víknaslóðir
Styrkurinn er veittur Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs til að fjármagna úttekt og endurbætur á gönguleiðinni Víknaslóðir. Víknaslóðir er eitt vinsælasta göngusvæði Austurlands og eru stikaðar gönguleiðir á svæðinu um 120 km.
- Jón Lyngmo – Lagfæring slóða að Höfðaströnd
Styrkurinn er veittur til að laga slóða frá Grunnavík í Jökulfjörðum við Ísafjarðardjúp til Flæðareyrar í Leirufirði.
- Páll Steinþórsson – Söguskilti
Styrkurinn er veittur til uppsetningar tveggja söguskilta í og við kirkjugarðinn í Arnarbæli í Ölfusi. Arnarbæli var kirkjustaður frá því á 13. öld fram til ársins 1909 en Páll hefur lagfært kirkjugarðinn í sjálfboðavinnu frá árinu 2013.
- Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs – Vistvangur
Samtökin hljóta styrk til verkefnisins Vistvangur þar sem örfoka land er endurvakið til lífs með lífrænum úrgangsefnum og uppgræðslu.