Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins telur að umskurður ólögráða drengja án læknisfræðilegrar ástæðu kunni nú þegar að vera bannaður samkvæmt íslenskum lögum og jafnvel stjórnarskrá. Hún hefur lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra til að fá úr þessu skorið og boðar nýtt frumvarp um bann við umskurði gerist þess þörf.
Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins lagði fram frumvarp á Alþingi síðastliðinn vetur um bann við umskurði ólögráða drengja. Frumvarpið fór til nefndar eftir fyrstu umræðu en fékk ekki afgreiðslu í nefndinni.
„Nefndin hafði kannski ekki tíma til að fullvinna málið og svara þeim spurningum sem brunnu á. Umsagnirnar voru reyndar fjölmargar en okkur vantaði ákveðnar upplýsingar inn í málið. Þess vegna ákvað ég að senda skriflega fyrirspurn til dómsmálaráðherra til að fá úr ákveðnum hlutum skorðið áður en lengra verði haldið,“ segir Silja Dögg.
Fyrirspurn Silju Daggar til Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra er í þremur liðum. Hún spyr hvort heimilt sé að framkvæma umskurð á kynfærum drengja ef ekki liggi fyrir læknisfræðilegar ástæður eða rök fyrir þörf á slíku óafturkræfu inngripi. Ef svo sé vill Silja fá að vita í hvaða tilvikum væri það heimilt.
Þá spyr Silja Dögg ráðherra hvort hún telji vert að láta skoða hvort slíkt óafturkræft inngrip sem umskurður á kynfærum drengja sé geti verið refsivert samkvæmt almennri refsilöggjöf. Og hvort ráðherra telji vert að láta skoða hvort slíkt óafturkræft inngrip geti verið andstætt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, m.a. um jafnræði og um friðhelgi einkalífs, ákvæðum barnaverndarlaga, laga um heilbrigðisstarfsfólk, laga um réttindi sjúklinga og laga um mannréttindasáttmála Evrópu auk barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
„En sumir lögfræðingar hafa nefnt að það sé hægt að gera þetta nú þegar. Þannig að ég vildi fá formlega niðurstöðu við þeim spurningum. Það er nauðsynlegt til að vita hvert skal stefna.“
Þannig að þú metur þá stöðuna í framhaldi af þessum svörum, hvort nauðsynlegt sé að leggja fram annað frumvarp?
„Já, ég geri það. Ég þarf náttúrlega ekki að leggja fram frumvarp að nýju ef þetta er þegar bannað. Það segir sig sjálft,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

