Skoðun

Ég hleyp fyrir...

Bjarni Karlsson skrifar
Um helgina tók ég þátt í stærstu guðsþjónustu ársins, Reykjavíkurmaraþoninu, þar sem meira en 14 þúsund hlauparar og annað eins af stuðningsfólki tók þátt í þágu bættrar heilsu og aukins réttlætis.

Sjálfur hljóp ég fyrir Pieta – forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, sem eru ein af 180 félagasamtökum sem voru með í áheitasöfnun að þessu sinni. Meðfram hlaupaleiðinni stóð brosandi fólk.

Einn stóð á tröppum húss síns og lék á saxófón, bílskúrsbönd léku á gangstéttum, fólk sló trommur og blés í flautur. Á Lindarbrautinni stóð sveittum hlaupurum svalandi regnúði til boða, börn söfnuðu „fimmum“ og er á leið voru boðnir fram drykkir, bananar, sætindi, melónur og margs konar fínerí sem grípa mátti á stökkinu.

Fulltrúar alls kyns velgerðar- og mannréttindasamtaka sem áttu sína spretthörðu fulltrúa hvöttu mannskapinn til dáða og yfir öllu ríkti gleði, umhyggja og samstaða. Um miðbik hlaupsins var ég lengi með mann fyrir framan mig sem hljóp vel og á baki hans stóð „Ég hleyp fyrir Baldur Tý og Baldvin Ara með von um lækningu“. Svo seig hann lengra en nöfn bræðranna ungu settust að í hjartanu á mér.

Ég bið þess að þeir fái bata og ég veit að við biðjum þess öll. Harðsperrurnar líða úr skrokknum en ilmurinn í sálinni mun vara lengi. Það er mögnuð reynsla að taka þátt í slíku fjöldaákalli og samstöðuyfirlýsingu þar sem berskjöldun mannlegrar tilveru er viðurkennd og henni lýst um leið og þrá okkar allra eftir heilsu og réttlæti er blygðunarlaust tjáð með manneskjulegheitum og gleði.

Með þátttökunni í Reykjavíkurmaraþoninu voru einstaklingar, fjölskyldur, vinahópar, félög og fyrirtæki að segja: Okkur stendur ekki á sama. Við höldum hvert með öðru og viljum að heilsa og réttlæti sé hlutskipti allra.




Skoðun

Sjá meira


×