Nashyrningastofninn (Diceros Bicornis) er í mikilli hættu og líkur eru á að þeir verði útdauðir ef ekkert verður að gert. Talið er að í heiminum séu færri en 5.500 svartir nashyrningar. Allir eru í Afríku og 750 þeirra í Kenía að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Flutningarnir, sem stjórnvöld í Kenía höfðu frumkvæði að, höfðu það að markmiði að nashyrningarnir fótuðu sig betur og fjölguðu sér í nýjum heimkynnum.
Krufningin leiddi í ljós að vatnið í þjóðgarðinum reyndist allt of salt fyrir nashyrningana. Nokkrir af hinum tíu nashyrningum sem færðir voru um set drápust ýmist úr vökvatapi, öndunarfærasýkingu eða magasári.

Upphaflega stóð til að færa fjórtán svarta nashyrninga í þjóðgarðinn en yfirvöld hættu við að flytja þrjá eftir að fyrstu nashyrningarnir tóku að drepast á nýjum stað.
Að því er fram kemur á Vísindavefnum er svarti nashyrningurinn talsvert minni en sá hvíti. Þar kemur einnig fram að rannsóknir hafi sýnt að nashyrningar sem búi á ófriðarsvæðum og svæðum þar sem veiðiþjófar eru sífellt á ferð eru mun árásargjarnari en á svæðum þar sem þeir fá að vera í friði.