Viðskipti innlent

Staða Landsbankans góð þó að arðgreiðslur séu hærri en hagnaður

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
VÍSIR/GVA
Hagnaður Landsbankans var 11,6 milljarðar króna eftir skatt á fyrri helmingi þessa árs. Verði staðan svipuð á seinni hluta árs er ljóst að hagnaður ársins verður minni en arðgreiðslur bankans á sama tímabili.

Á aðalfundi Landsbankans í mars var samþykkt að bankinn greiddi út arð sem nemur 24,8 milljörðum króna á þessu ári, sömu upphæð og árið áður.

Samkvæmt arðgreiðslustefnu bankans er gert ráð fyrir að reglulegar arðgreiðslur verði að jafnaði 60-80% af hagnaði fyrra árs, fyrir utan sérstakar arðgreiðslur „til að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans“.

Samkvæmt þeirri stefnu var ákveðið að greiða annars vegar rúmlega 15 milljarða arð (78% af hagnaði ársins) og hins vegar sérstakan arð sem nemur tæplega 9,5 milljörðum. Arðgreiðslur bankans frá 2013 eru þá orðnar samtals 131,7 milljarðar króna. Þessar upphæðir renna að mestu í ríkissjóð þar sem ríkið er aðaleigandi bankans.

Samkvæmt nýbirtu uppgjöri bankans fyrir fyrri helming 2018 var bæði hagnaður og arðsemi eigin fjár aðeins minni en á sama tímabili í fyrra.

Mest virðist muna um eins og hálfs milljarða samdrátt í „öðrum rekstrartekjum“, sem skýrist aðallega af óhagstæðum aðstæðum á verðbréfamörkuðum samkvæmt uppgjörinu.

Eigið fé Landsbankans var 232,1 milljarður króna í lok júní og eiginfjárhlutfall 24,1%.

Í tilkynningu bankans segir: „Útlán og innlán hjá Landsbankanum jukust talsvert milli tímabila sem endurspeglar bæði vaxandi umsvif í þjóðfélaginu og aukna markaðshlutdeild bankans sem mælist nú 37,9% meðal einstaklinga og 37,1% meðal fyrirtækja.


Tengdar fréttir

Bónusgreiðslur hjá Landsbankanum brutu gegn lögum um fjármálafyrirtæki

Fjármálaeftirlitið telur að kaupaukagreiðslur sem tíðkuðust í Landsbankanum á árunum 2014-2016 hafi brotið gegn lögum um fjármálafyrirtæki þar sem engu kaupaukakerfi hafi verið til að dreifa hjá bankanum. FME mun hins vegar ekki beita viðurlögum þar sem bankinn hefur þegar brugðist við athugasemdum eftirlitsins að mati þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×