Nýjasta vendingin er að fréttastöðvar hafa komist yfir upptökur af grátandi börnum, í haldi bandarískra yfirvalda í flóttamannabúðum, sem öskra á foreldra sína af veikum mætti. Ásamt myndum af aðbúnaði barnanna, sem eru meðal annars geymd í gömlum vöruskemmum, hefur þetta vakið mikinn óhug víða um heim.

Þá eru sífellt fleiri repúblikanar að bætast í hóp þeirra sem krefjast þess að Trump afturkalli stefnuna. Ekki má gleyma því að þingkosningar eru síðar á þessu ári og sum þingsæti standa tæpt. Í slíkum tilvikum hafa þingmenn jafnvel ekki efni á öðru en að sýna einhverja samúð með grátandi börnum í flóttamannabúðum á bandarískri grundu.
Trump neitar að viðurkenna tilkynningu eigin dómsmálaráðherra

Það er jú vel skjalfest, af Trump stjórninni sjálfri, að aðskilnaðar barna frá foreldrum er ný stefna sem var innleidd eftir tilkynningu í síðasta mánuði frá Jeff Sessions dómsmálaráðherra. Sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar þessa breytingu vera ætlaða til að fá fólk til að hugsa sig um tvisvar áður en það reyndi að komast yfir landamærin ásamt börnum sínum.
Lindsey Graham, áhrifamikill þingmaður Repúblikanaflokksins frá Suður-Karólínu, hefur almennt verið áreiðanlegur stuðningsmaður forsetans en meira að segja hann hefur viðurkennt að stefnan sé alfarið á ábyrgð Trumps. Í samtali við sjónvarpsstöðina CNN sagði hann að Trump gæti afturkallað allt saman með einu símtali.

Hafnar sérstökum lögum um börnin
Engu að síður heldur Trump áfram að halda því ranglega fram að hendur hans séu bundnar og að tilkynningin frá dómsmálaráðherra hans á sínum tíma tilheyri einhverskonar hliðstæðum veruleika. Eina leiðin til að bjarga börnunum sé að fá demókrata til að gefa eftir hvað varðar löggjöf í innflytjendamálum.Hversu lengi ríkisstjórnin heldur því til streitu er erfitt að segja en tilgangurinn virðist vera að knýja fram einhverjar allsherjarbreytingar í krafti þeirrar krísu sem stjórnin hefur sjálf skapað í kringum aðskilnað fjölskyldna.
Þegar talsmaður ríkisstjórnarinnra var spurður hvort það kæmi til greina að setja bara sérstök lög til að koma í veg fyrir að börn væru aðskilin frá foreldrum sínum og sett í flóttamannabúðir var svarið afdráttarlaust nei.