Sjúkdómurinn er bráðsmitandi og er farþegum sem deildu flugvél með manninum ráðlagt að ganga úr skugga um að þeir hafi ekki smitast af mislingunum.
Maðurinn hafði ferðast frá Kænugarði í Úkraínu með viðkomu á Íslandi. Hann millilenti og skipti um flugvél á tveimur stöðum og eru farþegar í eftirtöldum flugferðum taldir kunna að vera í hættu.
- Flug Ukraine International Airlines númer PS423 frá Kænugarði til Berlín.
- Flug Icelandair númer FI529 frá Berlín til Keflavíkur.
- Flug Icelandair númer FI603 frá Keflavík til Toronto.
Á vef kanadíska ríkisútvarpsins segir að hver sá sem komist hefur í tæri við mislinga, hefur ekki fengið tvo skammta af mislingabóluefni eða aldrei áður smitast af mislingum sé í áhættuhópi.
Mislingar eru sérstaklega hættulegir börnum, þunguðum konum og fólki með viðkvæmt ónæmiskerfi.
Farþegum á fyrrnefndum leiðum er ráðlagt að fylgjast vel með einkennum sjúkdómsins; sem sögð eru vera hár hiti, hóstaköst, nefrennsli, særindi í augum, viðkvæmni fyrir birtu og rauð útbrot sem geti varað í allt að viku.
Á vef landæknis segir að einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum og því sé rétt er að hafa samband við lækni til að fá staðfestingu á að um mislinga sé að ræða.