Skoðun

Langlífi

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
„Líflína þín er óvenju stutt, þannig að þú verður ekkert voðalega gömul,“ sagði spákona mér þegar ég var tvítug. Hún sagði mér líka ýmislegt annað sem átti eftir að rætast. Því hefur það hvarflað að mér hvort endalok okkar séu fyrirfram ákveðin. En þegar saga langlífustu þjóðar heims er skoðuð má læra ýmislegt.

Japanir voru ekki alltaf langlífastir. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru Japanir með eina hæstu dánartíðnina og árið 1980 voru íbúar Nagano-héraðs í japönsku ölpunum með hæstu tíðni heilablóðfalla. Ráðamenn leituðu skýringa og fundu hana í þjóðarréttinum tsukemono sem inniheldur mikið af salti og var vinsæll í héraðinu. Með öflugu fræðsluátaki tókst að draga úr neyslunni sem varð til þess að tíðni heilablóðfalla lækkaði hratt.

Japanir hafa gert fleira til að stuðla að heilbrigðum lífsháttum. Eftir að ævistarfinu lýkur taka margir upp hlutastarf á nýjum vettvangi. Þeir virkja hver annan í gönguferðir, nágranna og fjölskyldu. Þeir bera fram matinn á litlum diskum og innbyrða um þriðjung af hitaeiningunum sem Bandaríkjamenn neyta. Japanir hugsa um hreinlæti og heilbrigðiskerfið er gott. Fjölskyldan er náin og félagsleg tengsl sterk. Stjórnvöld leggja áherslu á forvarnir fyrir íbúa sína svo þeir lifi ekki einungis lengi heldur geti notið þess að eldast heilbrigðir.

Fyrst eftir spádóminn hugsaði ég með mér að það væri nú bara helvíti gott ef ég næði fertugu. Svo varð ég fertug og mér fannst lífið rétt að byrja. Því er gott til þess að hugsa að við getum gert ýmislegt til að auka líkurnar á að við náum háum aldri. Það hafa Japanir kennt okkur.




Skoðun

Sjá meira


×