Danir voru á þessum tíma með eitt sterkasta handboltalið í heimi og höfðu unnið til silfuverðlauna á HM árið áður. Liðið kom til Íslands til að leika tvo æfingaleiki í Laugardalshöll og tapaði íslenska liðið fyrri leiknum 14-17.
Í tilefni tímamótanna bauð Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, liðsmönnum og eiginkonum þeirra til Bessastaða. „Við höfðum samband við forsetann og spurðum hvort hann vildi koma í boð til okkar. Hann sneri þessu bara við og bauð okkur til sín,“ segir Jón Hjaltalín Magnússon, einn af landsliðsmönnunum.
Jón segir tilvalið að fagna afmælinu í sunnudagskaffi á Bessastöðum. Leikurinn sjálfur var leikinn á sunnudegi og raskaði hann ófáum kaffiboðum. „Þetta hafði náttúrlega áhrif á fermingarveislur, því allir voru límdir við útvarpið að hlusta á lýsinguna,“ bendir Jón á.

Gaupi minnist sérstaklega upphafs leiksins. „Fyrsta mark leiksins skoraði Jón Hjaltalín frá miðju, úr frumkasti. Þá stóð í rammanum markvörðurinn Bent Mortensen sem var á þeim tíma líklega albesti markvörður í heiminum.“ Hann telur þetta mark hafa gefið liðinu mikinn drifkraft inn í leikinn.
Að sögn Jóns stóðst Bent ekki samanburð við markmann íslenska liðsins, Þorstein Björnsson. Þorsteinn hafi nánast lokað markinu og skipti það sköpum. Þá hafi vörnin verið skipuð hávöxnum og sterkum leikmönnum og sóknin gengið vel upp. Leikurinn hafi því sem næst verið fullkominn.
Fagnaðarlætin eftir leik eru þeim báðum eftirminnileg. Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, rauk inn á völlinn að leik loknum til að hrópa ferfalt húrra fyrir liðinu.
Jón segir knattspyrnuleikinn fræga sem endaði 14-2 enn hafa setið í fólki og rifjar sérstaklega upp hamingjuóskir frá eldri manni. Sá hafði tekið í höndina á honum og þakkað fyrir góða frammistöðu með orðunum: „Þarna urðum við Íslendingar loksins sjálfstæðir.“