Innlent

Skilti við Hlemm sveiflast „eins og lauf í vindi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viðbragðsaðilar við störf á Hlemmi í kvöld.
Viðbragðsaðilar við störf á Hlemmi í kvöld. Vísir/Egill
Skilti utan á hótelinu Hlemmur Square við Hlemm í miðborg Reykjavíkur hefur losnað frá byggingunni og sveiflast til og frá í hvössum vindi sem nú er á höfuðborgarsvæðinu. Viðbragðsaðilar vinna nú að því að ná skiltinu niður.

Lögregluþjónn á vettvangi segir í samtali við Vísi á áttunda tímanum í kvöld að verulega hætta sé á að skiltið detti niður.

„Það hefur slitnað út frá þremur festingum og svo sveiflast þetta eins og lauf í vindi.“

Búið er að girða af svæðið undir skiltinu til að koma í veg fyrir að það falli á vegfarendur. Þá eru björgunarsveitir mættar á staðinn til aðstoðar auk kranabíls.

Aftakaveður er á höfuðborgarsvæðinu en skiltið laflausa er þó fyrsta veðurtengda verkefnið sem lögregla sinnir í kvöld.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi á áttunda tímanum að skiltið umrædda sé einnig fyrsta verkefni kvöldsins hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnin séu nú alls þrjú, fyrr í dag sinntu björgunarsveitir tveimur fokútköllum á Hvolsvelli annars vegar og Blönduósi hins vegar.

Veður er afar slæmt um allt land og er gul viðvörun Veðurstofu  í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestirði, Norðurlandi eystra, Austurlandi að glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi. Þá er appelsínugul viðvörun í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra.

Kranabíll er kominn á vettvang.Vísir/Egill
 

Lögregla vaktar skiltið við Hlemm Square.Vísir/Egill
 

Skiltið sveiflaðist til eins og sjá má á myndinni.Vísir/Egill
Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×