Sport

28 Rússar ekki lengur í banni eftir ákvörðun Alþjóðaíþróttadómstólsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir Rússar komust á verðlaunapall á vetrarólympíuleikunum í Sotsjí 2014.
Margir Rússar komust á verðlaunapall á vetrarólympíuleikunum í Sotsjí 2014. Vísir/Getty
Rússunum fjölgar sem geta tekið þátt í vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu. 28 þeirra fengu hjálp frá Alþjóðaíþróttadómstólnum til að öðlast keppnisréttindi á nýjan leik.

Alþjóðaíþróttadómstóllinn (CAS, Court of Arbitration for Sport) tók fyrir mál íþróttafólksins og felldi lífstíðarbann þeirra út gildi. Allt þetta íþróttafólk má því keppa á Ólympíuleikunum seinna í þessum mánuði.

Ellefu íþróttamenn til viðbótar fengu bannið fellt úr gildi að nokkru leyti en það fólk má þó ekki keppa á komandi Ólympíuleikum í Pyeongchang.





 Allir íþróttamennirnir höfðu verið dæmdir í lífstíðarbann eftir að upp komast um umsvifamikið og vel skipulagt lyfjamisferli innan rússneska íþróttsambandsins í tengslum við vetrarólympíuleikana í Sotsjí 2014.

Alþjóðadómstóllinn sagði í niðurstöðu sinni að sönnunargögnin um að þetta íþróttafólk hafi tekið ólögleg lyf hafi verið ófullnægjandi og því hafi ekki tekist að sanna það að íþróttamennirnir hafi neytt ólöglegra lyfja.

Alls voru 43 rússneskir íþróttamenn setti í lífstíðarbann frá Ólympíuleikunum eftir rannsókn Alþjóðaólympíunefndarinnar á lyfjamisferli Rússa á vetrarólympíuleikunum í Sotsjí 2014.

Rússar mega ekki keppa undir merki þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum í Pyeongchang en 169 höfðu fengið leyfi til að keppa á leikunum og þá undir hlutlausum fána Alþjóðaólympíunefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×