Innlent

Hlýindi og hávaðarok

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hiti fer upp í 8 stig á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þá má búast við töluverðri rigningu.
Hiti fer upp í 8 stig á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þá má búast við töluverðri rigningu.
Hlý sunnanátt verður á landinu í dag með tilheyrandi rigningu sunnan- og vestantil á landinu og hávaðaroki norðan heiða. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Gert er ráð fyrir að vindur nái 18-25 m/s norðantil í dag en 10-18 m/s sunnan heiða og þá er töluvert hlýrra á landinu en undanfarna daga. Með kvöldinu hægist á vindi og kólnar í veðri með slyddu eða snjókomu vestanlands.

Ágæt færð er víðast hvar á landinu í dag. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að nú sé að mestu greiðfært á Suður- og Suðvesturlandi. Á Norðurlandi og Vestfjörðum eru þó víða hálkublettir og töluvert hvassviðri.

Á morgun, mánudag, er jafnframt búist við hvössum éljum, jafnvel samfelldri snjókomu, og frosti á bilinu 0 til 5 stig. Þá verður þó þurrt á Austurlandi. Á þriðjudag verður áfram kalt í veðri og einhver éljagangur á Vesturlandi en léttskýjað annars staðar á landinu. Þá er spáð hvassviðri eða stormi með snjókomu, slyddu eða rigningu aðfararnótt miðvikudags.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:

Vestan 8-15 m/s og él, en léttskýjað austantil. Dregur úr éljum eftir hádegi. Frost 2 til 15 stig, kaldast í innsveitum NA-lands. Snýst í vaxandi sunnanátt V-til á landinu um kvöldið með hlýnandi veðri.


Á miðvikudag:

Sunnan hvassviðri eða stormur með talsverðri rigningu eða snjókomu aðfaranótt miðvikudags, en snýst síðan í hægari suðvestanátt með éljum, fyrst vestantil. Kólnar í veðri og léttir til fyrir austan síðdegis.


Á fimmtudag:

Stíf suðvestanátt og él, en þurrt og bjart á Norðaustur- og Austurlandi. Frost 1 til 12 stig, kaldast NA-til.


Á föstudag og laugardag:

Útlit fyrir áframhaldandi umhleypingar, sunnan og suðvestanáttir með rigningu eða éljum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×