Innlent

Forgangsmál að hafa upp á grímuklæddum árásarmanni í Hveragerði

Gissur Sigurðsson skrifar
Það varð drengnum til happs að hundurinn sem var með honum glefsaði í árásarmanninn.
Það varð drengnum til happs að hundurinn sem var með honum glefsaði í árásarmanninn. Vísir/E.Ól.
Lögreglan á Suðurlandi leitar enn að óþekktum manni, sem réðst grímuklæddur á 13 ára dreng í Hveragerði undir kvöld í gær og reyndi að ræna hann. Árásin varð í útjaðri bæjarins eða undir Hamrinum svonefnda.

Stjúpfaðir drengsins greindi nafnlaust frá því á Mbl.is í gærkvöldi að maðurinn hefði ráðist aftan að drengnum, þvingað hann niður og krafðist þess að drengurin afhenti honum allt sem hann væri með á sér, þar með talið nýjan farsíma.

Drengnum, sem er stór eftir aldri tókst, hins vegar að snúa árásarmanninn af sér með aðstoð hunds sem glefsaði í árásarmanninn. Komst drengurinn undan á hlaupum án þess að árásarmaðurinn hafi náð einhverju af honum.

Lögreglu var þegar tilkynnt um málið, en þrátt fyrir mikla eftirgrennslan hennar í bænum féll ekki grunur á neinn og engar ábendingar hafa enn borist um manninn, að sögn lögreglu.

Þá var lýsing piltsins á honum nokkuð almenn, sem oft vill verða þegar þolendum í árásarmálum bregður illa. Pilturinn slapp ómeiddur nema hvað hann fann til í öðrum fætinum eftir átökin.

Að sögn lögreglu er lögð mikil áhersla á að hafa uppi á árásarmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×