Erlent

Lögregluþjónar létu lífið í sprengjuárás í Kólumbíu

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Átök eru tíð í Kólumbíu. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Átök eru tíð í Kólumbíu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/afp
Að minnsta kosti þrír lögregluþjónar létu lífið í sprengjuárás í borginni Barranquilla í Kólumbíu í dag. Reuters greinir frá.

Fjórtán eru særðir eftir árásina en hún átti sér stað fyrir utan lögreglustöðina í bænum. Talið er að árásin hafi beinst sérstaklega að lögregluþjónum sem staddir voru á svæðinu. Glæpagengi sem aðhafast á svæðinu eru bendluð við árásina en nú þegar hefur einn verið handtekinn grunaður um aðild að voðaverkinu.

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, sendi samúðarkveðjur til fórnarlamba árásarinnar og aðstandenda þeirra og sagði í yfirlýsingu á Twitter að yfirvöld myndu ekki anda rólega fyrr en þau hefðu hendur í hári þeirra sem ábyrgjast ódæðisverkið.

Mikið er um glæpagengi í Kólumbíu og tengist starfsemi þeirra gjarnan útflutningi á kókaíni. Þá hafa átök verið tíð í landinu undanfarna áratugi, ekki síst í tengslum við skæruliðasamtökin FARC. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×