Hundrað milljónir króna vantar upp á fjárheimildir svo Sjúkrahúsið á Akureyri geti veitt íbúum á svæðinu nauðsynlega þjónustu. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða í gær ályktun þar sem miklum vonbrigðum er lýst með það fjármagn sem ætlað er til heilbrigðismála á Norðurlandi í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.
Fram kemur að í ljósi þess að sérstök áhersla sé lögð á heilbrigðismál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar skjóti það skökku við að sjúkrahúsið fái aðeins aukningu upp á 0,6 prósent. Aukin þjónustuþörf undanfarin ár hafi verið á bilinu tvö til fjögur prósent árlega. Þá furðar bæjarstjórnin sig á hagræðingarkröfu í garð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Þjónustuþörfin hafi aukist verulega.
