Kvennaathvarfið fékk í gær eina milljón króna í styrk frá trúfélaginu Zuism. „Styrkurinn er hluti af þeirri upphæð meðlima Zuism sem völdu að láta sóknargjöld sín renna til góðra málefna,“ segir í tilkynningu frá almannatengli félagsins.
„Þessi styrkur mun fara í að bæta lífsgæði þeirra kvenna sem hingað leita og auka sérfræðiþjónustu sem er mjög mikilvægt,“ er haft eftir Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins.
Áður hefur Zuism styrkt Barnaspítala Hringsins um 1,1 milljón og UNICEF um 300 þúsund krónur.

