Skoðun

Jafnaðarstefna fyrir siðað þjóðfélag

Hörður Filippusson skrifar
Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands er sá flokkur sem aðhyllist ómengaða jafnaðarstefnu, stefnu sem reynst hefur affarasælust meðal nágrannaþjóða okkar og verið grunnur þeirra þjóðfélaga þar sem best er að búa. En hvað er jafnaðarstefna? Kannski er henni lýst í stystu máli í inngangi nýju stjórnarskrárinnar þar sem rætt er um að skapa „réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð”. Skýrt og einfalt.

Nánari viðmið er til dæmis að finna í siðareglum Alþjóðasambands jafnaðamanna þar sem segir meðal annars um erindi jafnaðarmanna:

- „Að reka framsækna pólitík sem stuðlar að velferð einstaklingsins, eflingu atvinnulífs, sanngjörnum viðskiptum, félagslegu réttlæti og umhverfisvernd í anda sjálfbærrar þróunar.

- Að veita viðnám gegn allri félagslegri og efnahagslegri pólitík sem styður hag forréttindahópa.

- Að berjast gegn hverskyns spillingu og hindrunum í vegi góðra stjórnarhátta“

Það er verk að vinna í íslensku þjóðfélagi með þessi gildi að leiðarljósi.

Fáir munu verða til að andmæla þessum grunngildum í orði. Margir stjórnmálaflokkar bera fram eitt og annað í anda þeirra í málflutningi sínum en ekki eru þeir allir trúverðugir og sporin hræða. Það er ekki sama hverjum þessara flokka við greiðum atkvæði. Í þessu efni eins og öðrum er vissara að varast eftirlíkingar og halla sér heldur að því sem er ekta. Reynslan sýnir að aðrar hugmyndir og hagsmunir verða oft ofaná þegar á hólminn kemur.

En hvað skal þá kjósa?

Ekki Sjálfstæðisflokk. Hann er fyrst og fremst flokkur eftirlitslauss einkaframtaks og auðræðis, flokkur einkavæðingar, sérhagsmuna og spillingar, varðhundur fjármagnseigenda.

Ekki Viðreisn. Hún er í skilgetið afkvæmi nýfrjálshyggjunnar, óvinar velferðarríkisins. Saga formannsins um einkavæðingu skóla er hörmuleg.  Flokkurinn skilar auðu í stjórnarskrármálinu, ber kápuna á báðum öxlum í Evrópumálum, boðar skólagjöld í háskólum.

Ekki Framsóknarflokkana tvo. Þeir eru eins og áður flokkar sérhagsmunagæslu, hægri flokkar merktir af skattaskjólsmálum og daðri við útlendingahatur og öfgahyggju. Úreltar hugmyndir um hinn sterka leiðtoga ganga þar ljósum logum og eru víti til varnaðar eins og sagan kennir.

Ekki Bjarta framtið. Hún sagði við stofnun skilið við jafnaðarstefnuna. Það kemur æ betur í ljós að sá flokkur er hallur undir einkavæðingu, til dæmis í heilbrigðiskerfinu.

Ekki Pírata. Þeir hafa góð áform um stuðning við nýja stjórnarskrá og endurbætta stjórnarhætti á ýmsum sviðum en sýn þeirra á grunngildi þjóðfélagsins er óljós. Í þeim efnum virðast þeir þó fúsir að fylgja leiðsögn jafnaðarmanna.

Ekki Vinstri græna, þó þeir standi jafnaðarmönnum næst í velferðarmálum og njóti vinsæls og vel gefins formanns. Þeir eru líklegastir til samstarfs við jafnaðarmenn en Evrópumál og kvótamál gætu þvælst fyrir slíku samstarfi meðan sterk öfl framsóknarmennsku og íhaldssemi ráða þar miklu.

Ljóst er af könnunum að Íslendingar vilja um jöfnuð og velferð. Þeir vilja nýja stjórnarskrá. Þeir vilja félagslegt réttlæti, öflugt atvinnulíf, sanngjörn viðskipti og öflugt menntakerfi. Eigi þessar hugmyndir að ná fram að ganga er nauðsynlegt að Samfylkingin fái góða kosningu til Alþingis. Það er mikilvægt að talsmenn ómengaðrar jafnaðarstefnu verði sterkir á þingi. Það verður engin vinstri stjórn án sterkrar Samfylkingar.

Þegar litið er til brýnna úrlausnarmála er stefna Samfylkingar skýr: Heilbrigðismál, almannatryggingar, húsnæðismál, stjórnarskrá, auðlindamál, Evrópumál, gjaldmiðillinn, umhverfismál, rammaáætlun, mannréttindamál, jöfnun atkvæðisréttar, velferð barna og svo framvegis. Í öllum þessum málum eru frambjóðendur Samfylkingar tilbúnir að leiða á forsendum jafnaðar, réttlætis og  mannúðar.

Stefna jafnaðarmanna er stefna fyrir alla, fátæka sem bjargálna, unga sem gamla, en ekki síst fyrir komandi kynslóðir. Hún er stefna þeirra sem vilja búa í siðuðu samfélagi.

Höfundur er lífefnafræðingur og prófessor emeritus




Skoðun

Sjá meira


×