Bíó og sjónvarp

Channing Tatum slítur samstarfi við The Weinstein Company

Þórdís Valsdóttir skrifar
Channing Tatum stendur við bakið á þeim konum sem hafa ásakað Harvey Weinstein um kynferðisofbeldi.
Channing Tatum stendur við bakið á þeim konum sem hafa ásakað Harvey Weinstein um kynferðisofbeldi. Vísir/getty

Leikarinn Channing Tatum sagði á Instagram reikningi sínum fyrr í dag að hætt verði við framleiðslu á myndinni Forgive me, Leonard Peacock vegna ásakana á hendur Weinstein. 



Til stóð að Tatum og samstarfsmaður hans, Reid Carolin, myndu framleiða myndina á næstu misserum í samstarfi við The Weinstein Company, sem Harvey Weinstein stofnaði ásamt bróður sínum.



Fjölmargar konur innan skemmtanageirans hafa sakað Weinstein um nauðgun og annars konar kynferðisofbeldi.



Channing Tatum lofsamar þær konur sem hafa stigið fram og sagt frá ofbeldi frá hendi Weinstein.



„Hugrökku konurnar sem höfðu kjarkinn til að standa upp og segja sannleikann um Harvey Weinstein eru hetjur í okkar augum. Þær eru að lyfta þeim þungu múrsteinum sem þarf til að byggja hinn sanngjarna heim sem við eigum öll skilið að lifa í,“ segir Tatum á Instagram.



Kvikmyndin Forgive me, Leonard Peacock átti að vera byggð á samnefndri bók Matthew Quick sem fjallar um dreng sem varð fyrir kynferðisofbeldi. Quick er þekktastur fyrir bókina Silver Linings Playbook sem síðar var gerð að margverðlaunaðri kvikmynd.



Í myndinni er fjallað um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess. Drengurinn sem um ræðir áformar að myrða besta vin sinn ásamt því að taka sitt eigið líf og fannst Tatum ekki við hæfi að fyrirtækið sem Harvey Weinstein stofnaði myndi framleiða slíka mynd sem fjallar um þessi málefni.



„Þetta er risavaxið tækifæri fyrir jákvæðar breytingar sem við tökum þátt í með stolti. Sannleikurinn er kominn upp á yfirborðið, við skulum klára það sem ótrúlegu samstarfsfélagar okkar byrjuðu á og eyða ofbeldi úr skapandi menningu okkar í eitt skipti fyrir öll,“ segir Tatum.

A post shared by Channing Tatum (@channingtatum) on


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×