Fimmti þátturinn fer í loftið á sunnudaginn og koma þar fram fjórir kórar og keppa um tvö laus sæti áfram í undanúrslitin. Hér að neðan ætlum við að fá að kynnast Stormsveitinni sem kemur fram í fimmta þætti á sunnudagskvöldið í beinni útsendingu á Stöð 2 klukkan 19:10.
Stormsveitin
Hugmyndin af Stormsveitinni var búin að gerjast í langan tíma. Í október 2011 var stormsveitin formlega stofnuð og tróð upp á þorrablóti Aftureldingar í jan 2012 við vægast sagt góðar undirtektir. Stormsveitin í Mosfellsbæ er skipuð fimm manna rokkhljómsveit ásamt 18 manna karlakór í fjórum röddum og er markmiðið að flytja metnaðarfulla rokktónlist sem er sungin af alvöru fjórrödduðum karlakór í flottum raddsetningum.
Sigurður Hansson er stjórnandi kórsins. Páll Helgason hefur verið tónlistarlegur ráðunautur og einnig raddsett fyrir kórinn það sem þurft hefur. Auk þess að flytja hefðbundin karlakórsverk eins og Brennið þið vitar og Úr útsæ rýsa þá flytur Stormsveitin slagara í anda Metallica og Queen. Kom Stormsveitin meðal annars fram á útgáfutónleikum Dimmu í sumar.
Hér að neðan má sjá kórinn syngja Fjöllin hafa vakað.