Innlent

Fínt Októberfest-veður í dag en blautt annað kvöld

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun í það minnsta ekki rigna á fólk inni í tjöldunum - nema kannski konfettí.
Það mun í það minnsta ekki rigna á fólk inni í tjöldunum - nema kannski konfettí. Vísir/Óskar
Tónlistarþyrstir gestir Októberfest SHÍ í Vatnsmýri mega gera ráð fyrir prýðilegu dansveðri í kvöld en þær ættu ekki að hafa regnkápuna langt undan á morgun.

Veðurstofan spáir allt að 14 stiga hita á suðvesturhorninu í dag og ætti að haldast þurrt í dag. Þá verður jafnframt bjart á Suðurlandi og hægur vindur en það mun bæði rigna og blása örlítið á fólk á Austurlandi í dag. Annars staðar á landinu gæti orðið vart við lítilsháttar bleytu.

Annað kvöld verður þó farið að rigna í Vatnsmýrinni og annars staðar á Suðvesturlandi. Það verður hægviðri og bjart í fyrramálið og mun rofa til og hlýna fyrir norðan- og austan. Vaxandi austanátt síðdegis og vindur á bilinu 8 til 13 metrar á sekúndu annað kvöld.

Nánar á veðurvef Vísis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Hægviðri, þurrt og bjart með köflum. Vaxandi austanátt síðdegis, 8-13 m/s undir kvöld og rigning sunnan- og vestanlands. Hiti 8 til 14 stig. 

Á sunnudag:

Norðaustan og síðar norðan 8-13 með rigningu, en rofar til á Suður- og Vesturlandi með deginum. Hiti frá 5 stigum í innsveitum fyrir norðan, upp í 13 stig syðst. 

Á mánudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 og víða bjart veður. Norðvestan 8-13 og rigning um landið norðaustanvert fram eftir degi. Hiti 4 til 13 stig, hlýjast syðst. Víða svalt í veðri um kvöldið og frystir jafnvel, einkum í innsveitum norðanlands. 

Á þriðjudag:

Suðaustan 3-8 og dálítil væta, en hægviðri og bjart á Norður- og Austurlandi. Hiti 6 til 11 stig. 

Á miðvikudag:

Útlit fyrir norðanátt með rigningu norðan- og austanlands og hita 4 til 8 stig, en bjartviðri sunnan heiða og hiti 9 til 13 stig að deginum. 

Á fimmtudag:

Útlit fyrir minnkandi norðanátt og bjartviðri, en léttir til fyrir norðan- og austan. Kólnandi veður.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×