NBA stórstjarnan Giannis Antetokounmpo verður með gríska landsliðinu á Evrópumótinu í körfubolta í haust en Grikkland er með Íslandi í riðli sem verður allur spilaður í Helsinki.
Antetokounmpo er í sextán manna hópi Grikkja sem var tilkynntur í gær. Kostas Missas er nýtekinn við sem þjálfari liðsins og hann sannfærði gríska undrið um að spila fyrir sig á Evrópumótinu sem hefst í lok ágúst.
Giannis Antetokounmpo hefur bætt sig mikið á hverju ári síðan að hann kom til Milwaukee Bucks og var í vetur valinn sá leikmaður í NBA-deildinni sem bætti sinn leik mest milli tímabila.
Antetokounmpo er ekki bara besti leikmaður Milwaukee Bucks heldur er hann kominn í hóp með bestu leikmönnum NBA-deildarinnar. Giannis var með 22,9 stig, 8,7 fráköst, 5,4 stoðsendingar, 1,9 varið skot og 1,6 stolinn bolta að meðaltali í leik með Buck 2016-17.
Giannis verður ekki sá eini í fjölskyldu sinni sem spilar með Grikkjum á EM því eldri bróðir hans, Thanasis Antetokounmpo, er einnig í EM-hópnum. Thanasis er tveimur árum eldri og spilar með Panathinaikos á næstu leiktíð en hann var valinn af New York Knicks í nýliðavalinu 2014.
Ísland mætir einmitt Grikklandi í fyrsta leik og verkefnið varð nú ekkert auðveldara þegar ljóst var að Giannis Antetokounmpo yrði með gríska liðinu.
Eina stóra nafnið sem vantar í gríska liðið á EM í ár er Kostas Koufos, miðherji Sacramento Kings, sem er að reyna að ná sér góðum af meiðslum á hendi.
Hér má sjá lista yfir allan hópinn og umfjöllum um valið.
