Washington Wizards hafði unnið tvo síðustu leiki liðanna og jafnað einvígið en Boston-menn fundu aftur taktinn á heimavelli sínum og unnu sannfærandi 123-101 sigur.
Boston Celtics náði forystunni strax í byrjun leiksins, stakk af eftir 16-0 sprett snemma leiks og var alls yfir í 44 mínútur og 42 sekúndur í þessum leik.
Bakvörðurinn og miðherjinn Al Horford nýttu sér það vel að Washington Wizards lagði ofurkapp á það að stöðva Isaiah Thomas í leiknum.
„Isaiah er að fá svo mikla athygli að við þurftum að stíga fram og búa eitthvað til. Isaiah gerði mjög vel að koma til mín boltanum og losa hann á réttum tíma. við náðum síðan að klára vel,“ sagði Al Horford.
Avery Bradley skoraði 25 af 29 stigum sínum í fyrri hálfleik og hefur aldrei skorað meira í leik í úrslitakeppni.
Al Horford var með 19 stig, 7 stoðsendingar, 6 fráköst og hitti úr 8 af 9 skotum sínum. Eitt af því sem kom Boston-liðinu á flug í fyrri hálfleiknum var þegar hinn smávaxni Isaiah Thomas setti hindrun fyrir Al Horford sem fékk í framhaldinu galopið þriggja stiga skot sem hann setti niður.
„Avery var sjóðheitur og Al var fránær. Við fundum engin svör á móti þessum tveimur,“ sagði Scott Brooks, þjálfari Washington-liðsins. Bradley hitti meðal annars úr 12 af 19 skotum sínum en fjórar af körfum hans voru þristar.
Isaiah Thomas gerði samt sitt en hann endaði með 18 stig og 9 stoðsendingar og kom alls að 41 stigi hjá Boston í nótt.
John Wall skoraði mest fyrir Washington eða 21 stig og Bradley Beal var með 16 stig. Liðið hitti aðeins úr 39 prósent skota sinna og skoraði 9 færri þrista en Boston (7 á móti 16). Þeir félagar Wall og Beal þurftu líka 36 skot utan af velli til að skora þessi 37 stig sín.
Eftir tvo flotta sigra í fyrstu tveimur leikjunum þá spilaði Boston-liðið skelfilega í tveimur leikjum á heimavelli Wizards. Brad Stevens þjálfara liðsins tókst hinsvegar að koma liðinu aftur á skrið í nótt.
Leikur sex er á föstudaginn í Washington og þar getur Boston Celtics tryggt sig inn í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar á móti Cleveland Cavaliers en vinni Washington Wizards menn þá verður hreinn úrslitaleikur í Boston á mánudaginn.