Körfubolti

Leonard með sigurkörfu á síðustu stundu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
San Antonio Spurs fagnaði því að vera komið aftur heim í nótt eftir átta útileiki í röð og vann eins stigs sigur á Indiana Pacers, 100-99, í NBA-deildinni í körfubolta.

Dramatíkin var mikil undir lokin en þegar lítið var eftir voru gestirnir yfir, 99-98. Kawhi Leonard, stórstjarna Spurs, tryggði þá sínum mönnum sigurinn með glæsilegu skoti úr teignum yfir Paul George, besta mann Indiana.

Spurs er sem fyrr í öðru sæti vesturdeildarinnar með 46 sigra og þrettán töp en liðið er fjórum leikjum á eftir toppliði Golden State og þremur sigrum á undan Houston Rockets sem vann líka í nótt.

Leonard fór á kostum í nótt og skoraði í heildina 31 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst en Pau Gasol kom sterkur inn af bekknum með 18 stig. Paul George var stigahæstur hjá Indiana með 22 stig.

LeBron James hlóð í sína sjöundu þrennu á tímabilinu í nótt þegar hann skoraði 28 stig, tók þrettán fráköst og gaf tíu stoðsendingar í fjögurra stiga tapi, 103-99, á móti Boston Celtics á útivelli.

Þetta eru tvö efstu lið austurdeildarinnar og ekki ólíklegt að þau mætist í úrslitum austursins í úrslitakeppninni. Sigurinn var því sterkur hjá Boston.

Isaiah Thomas, leikstjórnandi Boston, skoraði 31 stig og gaf fimm stoðsendingar en Kyrie Irving skoraði 28 stig eins og LeBron fyrir Cleveland.

Úrslit næturinnar:

Orlando Magic - NY Knicks 90-101

Toronto Raptors - Washington Wizards 96-105

Atlanta Hawks - Dallas Mavericks 100-95

Miami Heat - Philadelphia 76ers 125-98

Milwaukee Bucks - Cleveland Cavaliers 103-99

San Antonio Spurs - Indiana Pacers 100-99

Utah Jazz - Houston Rockets 103-122

Sacramento Kings - Brooklyn Nets 100-109

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×