Hrefna rak heldur betur upp stór augu um árið þegar hún kom auga á Björk Guðmundsdóttur í peysu sem hún prjónaði einum þrjátíu árum áður, en þessu segir hún frá á Facebook nú fyrir stuttu.

„Ég man ekki nákvæmar tímasetningar, en ég sá Björk í mótmælum í fréttunum og þá sá ég það að hún var komin í peysuna – hún hlýtur að hafa keypt hana í Rauða krossinum, það er eina skýringin sem ég kann á þessu.“

„Dóttir mín fékk hana líka lánaða í einhverjar útilegur, þannig að þessi peysa hefur fengið að fara víða.“
Hrefna segist sjálf hafa hannað peysuna sem óhætt er að segja að hafi verið á ferðalagi síðan.
„Ég hannaði hana bara sjálf, þetta er ekki eftir neinni uppskrift. Ég settist bara niður og prjónaði eina stóra og góða fyrir útilegu, það var markmiðið. Ég man ekki lengur hversu lengi ég var að prjóna þetta, það er orðið svolítið langt síðan, heil þrjátíu ár – þetta dofnar í minningunni.“