Körfubolti

ESPN: Houston Rockets með betra lið en SA Spurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/AP og Getty
Körfuboltaspekingar NBA-deildarinnar eru duglegir að setja saman allskyns lista og þar á meðal lista yfir hver séu bestu lið NBA-deildarinnar hverju sinni.

Það er ekki ein stöðutafla sem gildir enda spilað raun í tveimur deildum og mörgum riðlum. Það er því ekki alveg nóg að líta bara á stöðuna til að ákveða hvaða lið er best.

ESPN setur saman reglulega sinn lista yfir bestu lið deildarinnar og það vekur athygli að á þeim nýjasta er San Antonio Spurs liðið komið niður í fjórða sætið.

Golden State Warriors (1. sæti) og Cleveland Cavaliers (2. sæti), liðin sem mættust í lokaúrslitunum síðasta sumar, eru áfram í tveimur efstu sætunum eins og þau hafa verið í nær allan vetur.

Lið Houston Rockets hoppar hinsvegar upp um tvö sæti, upp fyrir San Antonio Spurs og Toronto Raptors, og er nú þriðja besta lið NBA-deildarinnar.

James Harden og liðsfélagar hans í Houston Rockets hafa nú unnið tíu leiki í röð og liðið blómstrar undir stjórn Mike D'Antoni sem vill umfram allt hraðan sóknarleik og nóg af skotum hjá sínu liði. Harden sjálfur er með 27,7 stig, 11,8 stoðsendingar og 8,0 fráköst að meðaltali í leik.

San Antonio Spurs er þó enn með annan besta árangurinn í Vestrinu og hefur unnið fjóra leiki í röð og 8 af síðustu 10. Liðið hefur líka unnið 14 af 15 útileikjum sínum sem er bestu útivallarárangurinn í deildinni.

Spekingar ESPN eru þó ekki alveg viss hvort samvinna LaMarcus Aldridge og Pau Gasol verði nægilega góð og þá er Tony Parker aðeins að skora 10,1 stig í leik.

Það er hægt að lesa meira um stöðutékk ESPN hér fyrir neðan.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×