Körfubolti

Miami Heat heiðraði Shaq með því að keyra 18 hjóla trukk inn á gólf | Myndband og myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal fékk sérstakt kvöld sér til heiðurs hjá Miami Heat í nótt en þá fór treyja hans upp í rjáfur í American Airlines Arena í Miami.

Shaq spilaði í Miami í aðeins fjögur ár (2004-2008) og hefur sjálfur sagt að hann hélt að menn væru að grínast í sér þegar þeir sögðu honum frá því að Miami Heat treyja hans væri á leiðinni upp í rjáfur.

Það var hinsvegar ekkert grín og í nótt fór hún þangað og treyja númer 32 situr þar við hlið treyjanna hjá Alonzo Mourning (Númer 33) og Tim Hardaway (Númer 10) sem voru þar til í nótt einu leikmenn Miami sem höfðu orðið slíks heiðurs aðnjótandi.

Það varð frægt á sínum tíma þegar Shaquille O'Neal mætti til Miami Heat 20. júlí 2004 á átján hjóla trukk og tilkynnti að hann ætlaði að koma með fyrsta NBA-meistaratitilinn til Miami. Shaq stóð síðan við stóru orðin.







Miami Heat vann NBA-titilinn 2006 og þrátt fyrir að O'Neal hafi ekki verið kosinn bestur í úrslitaeinvíginu, heldur Dwyane Wade, þá átti Shaq mikinn þátt í sigri liðsins.

Pat Riley, forseti Miami Heat og þjálfari þess þegar Shaquille spilaði þar talaði um það í ræðu við þetta tilefni að O'Neal hafi hreinlega breytt félaginu þegar hann kom.

Til að minnast þessara ummæla Shaq þegar hann mætti til Miami sumarið 2004 þá kom átján hjóla trukkur inn á gólfið í American Airlines Arena í Miami þegar Shaq var heiðraður. Þeir komu náttúrulega ekki alvöru trukk inn í húsið en það var táknrænt að eftirlíking af slíkum flutningabíl væri á gólfinu þegar Shaquille O'Neal var heiðraður.

Það má sjá upptöku af innkomu átján hjóla trukksins sem og hátið Shaquille O'Neal í Miami í nótt hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×