Körfubolti

Durant tók óvænt upp hanskann fyrir dómarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Andre Iguodala.
Kevin Durant og Andre Iguodala. Vísir/Getty
Kevin Durant ætti að öllu eðlilegu að vera mjög fúll að hafa ekki fengið villu á lokasekúndum stórleiks Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers á jóladag.  Hann hefði getað tryggt sínu liði sigurinn ef hann hefði náð góðu skoti.

Richard Jefferson felldi Kevin Durant þegar sá síðarnefndi var að reyna að koma sér í skotfæri á lokasekúndum leiksins og endaði á því að taka lokaskotið sitjandi á gólfinu.  Vonlaust færi og Golden State tapaði aftur fyrir Cleveland.

Durant fór hinsvegar öðruvísi leið þegar NBA-deildin gaf það út að hann hefði átt að fá villu en dómararnir hefðu gert mistök. Blaðamenn vildu fá viðbrögð en bjuggust örugglega ekki við því sem Durant sagði.

NBA starfrækir sérstaka nefnd sem fer yfir allar ákvarðanir dómara síðustu tvær mínútur leiksins og gefur það síðan út í skýrslu hvort þeir hafi dæmt rétt eða rangt.

Dómararnir í umræddum leik gerðu mistök og fengu það beint í andlitið í þessari skýrslu. Flestir leikmenn í sömu stöðu hefðu fagnað svona mati en ekki Kevin Durant. Durant tók nefnilega upp hanskann fyrir dómara leiksins.

„Þeir ættu að hætta með svona skýrslur. Dómararnir eiga þetta ekki skilið. Þeir eru að gera sitt besta og svo skoða menn þetta í hægri endursýningu og gefa það síðan út að þeir hafi gert mistök,“ sagði Kevin Durant.

„Það er algjört rugl að henda dómurum fyrir rútuna eins og það skipti einhverju máli núna,“ sagði Durant og bætti við:

„Það gengur ekki að sekta okkur fyrir að gagnrýna dómara og skella fram svona tveggja mínútna skýrslu. Hvað með fyrsta leikhlutann, annan leikhlutann eða þriðja leikhlutann? Þetta er algjört rugl,“ sagði Durant.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×