Körfubolti

Engin þrenna hjá Westbrook en góður sigur hjá Oklahoma | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Westbrook náði ekki þrennu en var samt langstigahæstur í liði Oklahoma.
Westbrook náði ekki þrennu en var samt langstigahæstur í liði Oklahoma. vísir/afp
Fimm leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Þau undur og stórmerki gerðust að Russell Westbrook náði ekki þrefaldri tvennu þegar Oklahoma City Thunder tók á móti Boston Celtics.

Það kom þó ekki að sök því Oklahoma vann leikinn, 99-96. Westbrook var langstigahæstur í liði Oklahoma með 37 stig. Hann tók einnig 12 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Al Horford skoraði 19 stig fyrir Boston sem er enn án síns aðalskorara, Isiah Thomas.

Klay Thompson skoraði 30 stig þegar Golden State Warriors vann Minnesota Timberwolves á útivelli, 108-116. Þetta var tólfti útisigur Golden State í 14 leikjum á tímabilinu.

Stephen Curry og Kevin Durant skoruðu 22 stig hvor fyrir Golden State sem situr á toppi Vesturdeildarinnar.

Andrew Wiggins, Zach LaVine og Karl-Anthony Towns skoruðu allir 25 stig fyrir Minnesota. Sá síðastnefndi tók einnig 18 fráköst.

Los Angeles Lakers tapaði sínum sjötta leik í röð þegar liðið fékk New York Knicks í heimsókn. Lokatölur 112-118, Knicks í vil.

Kristpas Porzingis skoraði 26 stig fyrir New York, tók 12 fráköst og varði sjö skot. Derrick Rose bætti 25 stigum við og Brandon Jennings skoraði 19 stig af bekknum.

Lou Williams var stigahæstur í liði Lakers með 24 stig.

Úrslitin í nótt:

Oklahoma 99-96 Boston

Minnesota 108-116 Golden State

LA Lakers 112-118 NY Knicks

Detroit 79-97 Philadelphia

Phoenix 119-120 New Orleans

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×