Vara­maðurinn tryggði meisturunum dramatískt stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
John Stones bjargaði stigi fyrir City í dag.
John Stones bjargaði stigi fyrir City í dag. Carl Recine/Getty Images

Arsenal og Manchester City, liðin sem höfnuðu í efstu tveimur sætum ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili, gerðu dramatískt 2-2 jafntefli er liðin mættust í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal veitti City harða baráttu um Englandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili, en liðið þurfti að lokum að sætta sig við annað sætið og horfa á eftir titlinum til Manchester-borgar.

Heimamenn í City voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og áttu meðal annars skot í stöng á upphafsmínútunum. Liðinu tókst svo að skora þegar norska markamaskínan Erling Haaland kom boltanum í netið á níundu mínútu, hans hundraðasta mark í 105 leikjum í öllum keppnum fyrir félagið.

Eftir um 20 mínútna leik snérist dæmið þó við og gestirnir í Arsenal náðu betri tökum á leiknum. Á 22. mínútu jafnaði liðið svo metin þegar hnitmiðað skot ítalska varnarmannsins Riccardo Calafiori söng í netinu og á fyrstu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks komust gestirnir í forystu þegar miðvörðurinn Gabriel stangaði hornspyrnu Bukayo Saka í netið.

Fyrri hálfleik var þó ekki enn lokið. Á áttundu mínútu uppbótartíma braut Leandro Trossard af sér og sparkaði boltanum í burtu eftir að búið var að dæma aukaspyrnu. Þetta var í annað skipti í leiknum sem hann sparkaði boltanum í burtu eftir að búið var að flauta og hann nældi sér þar með í sitt annað gula spjald og var sendur í snemmbúna sturtu.

Síðari hálfleikur var svo algjör eign heimamanna í City. Englandsmeistararnir voru nánast allan tímann með boltann og sóttu stíft að marki gestanna.

Þrátt fyrir það virtist ekkert ætla að ganga í þeim efnum að jafna metin, þrátt fyrir að vera manni fleiri. Þéttur varnarmúr Arsenal stóð vel og David Raya greip vel inn í í marki Arsenal þegar liðið þurfti á honum að halda.

Það var ekki fyrr en að komið var rúmar sex mínútur fram yfir venjulegan leiktíma að stíflan loksins brast. Jack Grealish kom boltanum þá inn á teig þar sem Mateo Kovacic skaut að marki. Skot Króatans fór í varnarmann, en boltinn datt svo fyrir varamanninn John Stones sem mokaði honum í netið úr vítateignum og bjargaði stigi fyrir Englandsmeistarana.

Manchester City er nú með 13 stig eftir fimm leiki á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, en Arsenal situr í fjórða sæti með 11 stig. Bæði lið eiga enn eftir að tapa leik á tímabilinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira